Kjósarhreppur - Myndir
17. maí 2019

Umferðaöryggisáætlun Kjósarhrepps

Ljósm: Björn Hjaltason

Sveitarfélagið Kjósarhreppur hefur gefið út umferðaröryggisáætlun fyrir árin 2019-2023.

 

Undanfarin ár hefur Samgöngustofa hvatt sveitarfélög til að gera áætlanir um umferðaröryggi. Samgöngu- og fjarskiptanefnd Kjósarhrepps samþykkti í júlí 2018 að fá heimild hjá hreppsnefnd að hefja vinnu við umferðaöryggisáætlun fyrir Kjósarhrepp. Umsjón verkefnisins var í höndum formanns samgöngu- og fjarskiptanefndar sveitarfélagins með aðstoð VSÓ Ráðgjafar. Vinna við gerð áætlunarinnar fór fram á tímabilinu október 2018 – apríl 2019. Þetta er í fyrsta skipti sem heildstæð umferðaröryggisáætlun er gerð fyrir sveitarfélagið.

 

 

Markmið með gerð umferðaröryggisáætlana er að auka vitund forráðamanna sveitarfélaga og íbúa um umferðaröryggi. Lagt er mat á núverandi stöðu umferðaröryggismála í sveitarfélaginu og lagðar fram tillögur til úrbóta. Verkefni eru mótuð úr þeim tillögum og þeim forgangsraðað. Lögð er áhersla á að rödd allra fái að heyrast og að hagsmunir allra vegfarendahópa séu teknir með.

 

Mikilvægur þáttur í þessari vinnu er myndun samráðshóps með helstu hagsmunaðilum. Í samráðshópnum voru fulltrúar frá Vegagerðinni, Samgöngustofu, Lögreglunni, björgunarsveitinni Kili ásamt fulltrúum sveitarfélagsins, skólaaksturs, íbúa og hestamanna. Fulltrúi frá VSÓ Ráðgjöf starfaði með hópnum. Umræður á fundi samráðshóps lögðu grunn að gerð áætlunarinnar þar sem staðkunnugir þekkja best hættur í umhverfinu og tóku fulltrúar í samráðshópnum þátt í að móta stefnu og markmið áætlunarinnar. Einnig var auglýst eftir ábendingum frá íbúum á heimasíðu sveitarfélagsins og haldinn íbúafundur. Áætlunin var að lokum lögð fyrir hreppsnefnd Kjósarhrepps og samþykkt til útgáfu.

 

Áætlað er að umferðaröryggisáætlunin verði endurnýjuð á fjögurra ára fresti. Fram að þeim tíma verði ábendingum sem berast sveitarfélaginu varðandi umferðaröryggi safnað saman og þær skoðaðar. Jafnframt verði unnið að þeim úrbótum sem lagðar eru fram í þessari umferðaröryggisáætlun. Tveimur árum eftir útgáfu umferðaröryggisáætlunarinnar er gert ráð fyrir að samráðshópur fundi þar sem farið er yfir verkefnastöðu og nýjar ábendingar.

 

Umferðaöryggisáætlun Kjósarhrepps 2019 - 2023