Kjósarhreppur - Myndir

Sorphirða og flokkun úrgangs í Kjósarhreppi

 

Sorphirða fer fram á tveggja vikna fresti og íbúar ákveða sjálfir stærð íláta við hús sín. Sjá nánar í samþykkt um sorpmál. Hreppurinn rekur endurvinnsluplan við Hurðarbaksholt og eru íbúar kvattir til þess að flokka endurvinnanlegan úrgang í þar til gerða gáma.

 

Vönduð flokkun er forsenda þess að hægt sé að endurvinna úrgang. Reglan er sú að blandaðan úrgang er ekki hægt að nýta en eftir því sem úrgangur er betur flokkaður, þeim mun betra hráefni er hann. Um leið og úrgangur er orðinn að hráefni fylgir því mun minni kostnaður fyrir sveitarfélagið að losna við hann, sem skilar sér beint inn í sorphirðugjöld íbúanna. Það er því hagur okkar allra að flokkun sé vönduð, bæði með tilliti til fjárhagslegra og umhverfislegra sjónarmiða.         

 

Ávinningurinn af því að flokka úrgang rétt        

  • Hann verður hráefni í nýjar vörur og verðmæti skapast.     
  • Minna landrými fer undir urðunarstaði.
  • Það kostar samfélagið minna ef úrgangur fer til endurvinnslu en ef hann er urðaður.

 

Forsenda þess að hægt sé að endurvinna úrgang er að hráefnið sé hreint. Því má aldrei blanda saman úrgangstegundum, s.s. pappír og plasti, timbri og málmi o.s.frv. Setjið því aldrei annað í gáma en það sem merkingar segja til um. Í mörgum tilfellum ber vandlega flokkaður úrgangur engin förgunargjöld og má sem dæmi nefna eftirfarandi flokka úrgangs: Bylgjupappi og sléttur pappi, plast, dekk, fernur og málmur. Ef mismunandi efnum er hins vegar blandað saman, kostar það umtalsverða fjármuni fyrir sveitarfélagið að losna við úrganginn.

 


Flokkun úrgangs á gámaplani við Hurðarbaksholt

 

Bylgjupappi

Bylgjupappi þekkist á þykkt hans og brúnir hans eru bylgjulaga. Fjarlægja þarf plastumbúðir innan úr kössum. Mikilvægt er að brjóta umbúðir saman áður en þeim er skilað. Framleiðsla úr endurunnum bylgjupappa er m.a. nýir pappakassar.

Sléttur pappi, s.s. morgunkornspakkar, kexpakkar o.fl. er flokkað með bylgjupappa á endurvinnsluplaninu í Kjós. Fjarlægið lausar plastumbúðir innan úr pappaumbúðum.

Úr hverjum fimm kössum sem berast til endurvinnslu má búa til fjóra nýja.

 

Fernur

Allar gerðir af fernum, hvort sem þær innihalda álfilmu eða ekki, eru flokkaðar í þrískiptan gám. Skolið fernurnar og brjótið þær saman svo þær taki sem minnst pláss. Gott er pakka fernum ofan í eina fernu. 

 

Dagblöð og tímarit

Dagblöð fara í annað hólf á þrískiptum gámi. Í þennan flokk má t.d. setja dagblöð, tímarit, auglýsingapóst og tölvupappír. Hefti og smærri gormar eru óskaðlegir við endurvinnslu en ekki má setja pappa, plast eða aðrar tegundir úrgangs í gáminn.

Úr hverju kílói af pappír má t.d. framleiða fjórar salernisrúllur.

 

Plastumbúðir

Þriðja hólfið á þrískipta gámnum er fyrir plastumbúðir, s.s. sjampóbrúsa, tómatsósuflöskur, plastpoka og annað plast sem hægt er að skilgreina sem umbúðir. Athugið að stórar plastumbúðir, s.s. brúsar frá landbúnaði fara í gáma fyrir heyrúlluplast.

Plast er endurunnið í nýjar vörur eða notað til orkuframleiðslu í brennslustöðvum.          

 

Dósir og flöskur

Á  gámaplani er gámur fyrir dósir og flöskur og hefur Félag sumarhúsaeigenda við Meðalfellsvatn umsjón með söfnun umbúðanna.      

Úr endurunnum plastflöskum er framleiddur flísfatnaður. Gamlar áldósir verða að nýjum áldósum við endurvinnslu. Glerflöskur nýtast sem landfyllingarefni.

 

Málmur

Í þennan flokk fer allt sem inniheldur málm, jafnvel þó í litlum mæli sé. Má sem dæmi nefna húsgögn, girðingavír, niðursuðudósir og aðrar málmumbúðir.

Málmur er verðmætt hráefni! Málm er hægt að bræða aftur og aftur og búa til úr honum nýja hluti.

 

Heyrúlluplast

Sérstakur gámur er fyrir heyrúlluplast og í hann má einnig setja stórar plastumbúðir sem komast ekki þrískipta gáminn.

Skilið aðeins tómum umbúðum og pressið saman eftir fremsta megni. Ekki setja frauðplast í gáminn! Það fer í almennt sorp.

Plastið er flokkað og ýmist sent erlendis til endurnýtingar eða nýtt til orkuvinnslu hérlendis.        

 

Hjólbarðar

Dekk og önnur gúmmíefni, net og band (ath. net og band skal vera í lokuðum plastpoka) fara í þar til gerðan gám.

 

Spillefni

Spilliefnum skal ávallt skilað til eyðingar en þessháttar efni eru skaðleg umhverfinu, mönnum og dýrum. Dæmi um spilliefni eru málning, olíuúrgangur, rafhlöður og rafgeymar, sterk hreinsiefni o.fl. Spilliefnum skal skila í lokuðum umbúðum. Réttar merkingar á ílátum auðvelda flokkun spilliefna. Spilliefni mega aldrei fara í almennt sorp.

Spilliefnum er eytt hjá Efnamóttökunni hf.

 

Raftæki

Raftæki skal flokka sérstaklega þar sem þau innihalda bæði spilliefni og góðmálma sem eru verðmætir til endurvinnslu. Á endurvinnsluplaninu eru sérstök kör fyrir minni raftæki en stærri raftæki eru geymd á merktu svæði á planinu.

Spilliefnum er eytt hjá Efnamóttökunni hf. Málmar og plast fara til endurnýtingar, t.d. eru góðmálmar notaðir í ný raftæki.

 

Timbur

Í þennan flokk fer hreint timbur. Naglar eru í lagi en stærri málmhluti og önnur efni verður að fjarlægja. Ekki má flokka masónít, trétex, þunnar innihurðir, málaðar eða plasthúðaðar spónaplötur með timbri. Slíkt fer í GRÓFAN ÚRGANG. Hreint timbur er tætt og notað sem undirlag undir skepnur.

 

Málað timbur

Í þennan flokk fer málað timbur, án stærri málmhluta og annarra efna. Förgunargjöld eru hærri en vegna ómálaðs timburs. Málað timbur er tætt og hefur m.a. verið notað sem yfirlag yfir sorphauginn í Fíflholti á Vesturlandi.

 

Grófur úrgangur

Þessi flokkur ber hæstu förgunargjöldin og því er mikilvægt að setja ekki nýtanlegt timbur eða málma í þennan flokk. Í þennan gám fara t.d. ónýt húsgögn, teppi, dýnur o.fl.

Efnið er umfangsminnkað í tætara og urðað.

 

Heimilissorp (óendurvinnanlegt)

Í þennan gám fer annar blandaður úrgangur sem ekki er hægt að flokka til endurnýtingar, s.s. matarleifar, frauðplast o.fl      

Efnið er umfangsminnkað í þar til gerðum pressum og urðað.       

 

Garðaúrgangur og jarðvegur

Ekki er ætlast til þess að garðaúrgangur, jarðvegur og steinbrot berist á móttökustað, heldur notist til moltugerðar heima fyrir og á stöðum sem lagðir eru til af landeigendum í samvinnu við sumarhúsafélög.

 

Athugið að Gámaþjónustan sem þjónustar Kjósarhrepp fer fram á að úrgangur sé flokkaður með ofangreindum hætti og helgast það af samningum fyrirtækisins við endurvinnslufyrirtæki innanlands sem og erlendis sem taka við mismunandi efnum til vinnslu.

Ef flokkuðum úrgangi er skilað til SORPU er farið fram á annars konar flokkun þar sem bylgjupappi skal vera hreinn en fernur og sléttur pappi mega fara saman.