Kjósarhreppur - Myndir

Nr. 183 20. febrúar 2007

SAMÞYKKT
um hreinsun, losun og frágang rotþróa í Kjósarhreppi.

1. gr.

Samþykkt þessi tekur til gerðar, staðsetningar, frágangs og hreinsunar rotþróa í Kjósarhreppi. Jafnframt skulu uppfyllt ákvæði reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru, nr. 796/1999 með breytingu nr. 533/2001 um varnir gegn mengun vatns og nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns.

Frárennsli sérhverrar húseignar í Kjósarhreppi, sem ekki er unnt að tengja við holræsakerfi í eigu og rekstri sveitarfélagsins, skal leiða gegnum rotþró og frekari hreinsun samkvæmt ákvæðum samþykktar þessarar. Þar sem þannig hagar til að ekki verði komið við rotþró og reglubundinni seyrulosun getur Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis heimilað aðrar lausnir.

Húsráðendur og forsvarsmenn fyrirtækja eða stofnana eru ábyrgir fyrir því að fráveitur

húsa á þeirra vegum séu í samræmi við lög og reglur þar um.

Samþykki Heilbrigðiseftirlits Kjósarumdæmis þarf fyrir nýjum og endurbættum fráveitum.

Stærð, staðsetning og frágangur rotþróa er háð samþykki Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis

og úttekt byggingarfulltrúa.

2. gr.

Kjósarhreppur annast alla meðhöndlun seyru í sveitarfélaginu, þ.e. seyrulosun úr rotþróm,

ásamt flutningi, endurnýtingu eða förgun. Heilbrigðiseftirlit Kjósarumdæmis annast

eftirlit með starfseminni.

Hreppsnefnd er heimilt að fela öðrum aðilum meðhöndlun seyru, enda hafi viðkomandi

starfsleyfi heilbrigðisnefndar Kjósarhrepps eða Umhverfisstofnunar, eftir því sem við á.

Umráðamenn eða eigendur fráveitna skv. 1. gr. geta þó falið öðrum en Kjósarhreppi

meðhöndlun seyru, enda framvísi þeir samningi til þriggja ára í senn, að lágmarki, við

þjónustuaðila með gilt starfsleyfi.

3. gr.

Meðhöndlun seyru skal framkvæmd undir yfirstjórn Kjósarhrepps, sem sér um samskipti

við þá aðila, sem málið varðar, svo sem vegna frágangs, förgunar eða nýtingar á seyru, í samræmi við reglugerð nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru.

4. gr.

Rotþrær og siturlagnir skulu tæmdar þriðja hvert ár að jafnaði. Aðili með gilt starfsleyfi

til meðhöndlunar seyru skal annast það verk og fjarlægja seyru þegar þess gerist þörf, þannig að virkni rotþróa og siturlagna sé tryggð.

Eigandi fráveitunnar (húseignar) skal sjá til þess að greiður aðgangur sé með hreinsitæki

að rotþrónni.

5. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að innheimta gjöld vegna seyrulosunar og eftirlits með fráveitum

skv. 1. gr., með gjaldskrá sem sett er á grundvelli 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og

mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum, sbr. og ákvæði 11. gr. laga nr. 55/2004 um meðhöndlun úrgangs og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Gjöld skulu lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem nýtur þjónustunnar. Birta skal gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

6. gr.

Heimilt er að innheimta aukagjald af eiganda eða umráðamanni fráveitu, ef seyrulosun er

óvenju kostnaðarsöm, einnig ef um sérstaka rotþró er að ræða við útihús eða þegar sérstakaraðstæður krefjast aukinnar þjónustu.Gjald þetta skal þó aldrei vera hærra en sem nemur sannanlegum kostnaði við verkið.

7. gr.

Hafi húsráðandi fram að færa kvörtun vegna seyrulosunar eða meðhöndlunar seyru skal

hann koma slíkri kvörtun á framfæri við fulltrúa Kjósarhrepps. Viðkomandi getur vísað

málinu heilbrigðisnefndar. Um málsmeðferð fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum.

Með mál út af brotum á samþykkt þessari eða gjaldskrám sem settar eru samkvæmt henni

skal fara að hætti opinberra mála.

8. gr.

Framangreind samþykkt hreppsnefndar Kjósarhrepps er sett samkvæmt ákvæðum 25. gr.

laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og samkvæmt 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga

nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Samþykktin staðfestist hér með samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs til þess að öðlast gildi við birtingu.

Ákvæði til bráðabirgða.

Eigendur þeirra húseigna sem ekki tengjast fullnægjandi rotþróm við setningu samþykktar

þessarar hafa frest til 1. janúar 2009 til að uppfylla ákvæði hennar.

Umhverfisráðuneytinu, 20. febrúar 2007.

F. h. r.

Ingimar Sigurðsson.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

__________

B-deild – Útgáfud.: 7. mars 2007