Fara í efni

Hreppslýsing Sr. Gunnars Kristjánssonar

Eftirfarandi grein, sem lýsir einkar vel staðháttum, gönguleiðum og sérkennum Kjósarinnar, er eftir séra Gunnar Kristjánsson sóknarprest á Reynivöllum og birtist hún sem sérprent með Árbók Ferðafélags Íslands árið 1985.
Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi séra Gunnars en hafa ber í huga við lestur greinarinnar að hún var skrifuð 1985.
Hægt er að lesa greinina  í köflum sem birtast á undirsíðum hér fyrir neðan.
Sigurbjörn Hjaltason myndskreytti.

Norðan Esju

Í Kjósinni, eftir Gunnar Kristjánsson

Inngangur 

Norðan Esju og sunnan Hvalfjarðar er Kjósin, umlukt fjöllum, hálsum, heiðum og hafi. Nafnið sjálft er talið merkja lítinn dal (kvos) og geta flestir verið á eitt sáttir um það, að sveitin ber nafn, sem henni hæfir. Kjósin er í alfaraleið og hefur verið svo frá alda öðli. Um hana liggur hringvegurinn og einnig gengur þjóðvegurinn milli Hvalfjarðar og Þingvallasveitar um hana þvera og eru báðar þessar leiðir mikið farnar, sú síðarnefnda þó einkum á sumrin. Báðar voru þær raunar þjóðleiðir til forna einnig auk annarra leiða, sem nú heyra sögunni til að mestu. Þannig er um Svínaskarðsleið, sem var alfaraleið til forna en er nú einkum farin af ríðandi mönnum.

Allra þessara leiða og raunar ýmissa annarra verður getið hér á eftir. Þótt Kjósin falli nú að nokkru leyti í skugga þéttbýlisins á Suðurlandi og beri þess ákveðin merki einkum í byggðaþróun undanfarinna áratuga og flestir fari um sveitina án þess að gefa henni sérstakan gaum, þá var vissulega öðru til að dreifa fyrr á tímum þegar stærsti kaupstaður landsins var í Kjósinni. Enn síðar kom það oft fyrir, að múgur og margmenni lagði leið sína í Kjósina, hvort sem það var vegna hvalveiða, síldveiði, vegna kræklingjatekju eða hersetu.

Á öllum tímum hafa ferðalangar, innlendir sem erlendir, átt leið um Kjósina, sem lá – og liggur – um þjóðbraut þvera og endilanga. Á seinni tímum hefur Kjósin dregið að sér áhugasama náttúruunnendur, sem vilja njóta þeirrar fegurðar, sem þar er óneitanlega að finna að ógleymdum laxveiðimönnunum, sem koma jafnvel frá fjarlægum löndum. Þá er og risin mikil sumarbústaðabyggð á ýmsum stöðum í sveitinni. En eftir sem áður er sveitin þó landbúnaðarhérað umfram annað, þótt fyrrnefnd byggðaþróun undanfarna áratugi hafi sett sinn svip á sveitalífið. Í þeim orðum, sem hér fara á eftir, verður þó lítið um hina áhugaverðu en enn sem komið er lítt skrifuðu byggðasögu fjallað, heldur umhverfið, þótt rúmið leyfi þar einnig takmarkaða umfjöllun. Í sóknar- og sveitarlýsingum frá fyrri tímum virðist nafnið Kjós aðeins eiga við um dalinn milli Esju og Reynivallaháls. Hins vegar ber þess að gæta, að Kjósarhreppur nær yrir stærra svæði, þ.e.a.s. Brynjudal og suðurhluta Botnsdals að norðanverðu en Eilífsdal og eystri hluta Miðdals að suðvestan. Í daglegu tali virðist orðið Kjós notað um Kjósarhrepp allan.

Meginhluti byggðarinnar er þó í hinum forna Kjósardal, eins og svæðið milli Esju og Reynivallaháls er stundum nefnt í fornum textum. Í honum miðjum gnæfir Meðalfell og ber því vissulega nafn sem því hæfir. Í daglegu tali eru nöfnin Laxárdalur og Eyjakrókur eða Krókur (eða Eyjahverfi) notuð um þá tvo hluta, sem Meðalfell skiptir Kjósardalnum í, en þau heiti eru ekki að finna í eldri textum en frá þessari öld. Kjósardalurinn, sem Björn Bjarnarson nefnir svo í sýslulýsingu sinni 1937, er grösugur dalur og frjósamur, undirlendi er mikið, einkum í norðurhluta dalsins, Laxárdal. Hins vegar gerir sr. Sigurður Sigurðsson langa sögu stutta í sóknarlýsingu sinni 1840 er hann segir „landslagið er víða rakasamt” og á það við um landið norðan og sunnan Laxár að miklu leyti þótt bakkarnir og nesin við ána séu víðast hvar góð slægjulönd og hafi ævinlega þótt svo.

Á tímum áveitnanna snemma á þessari öld voru miklar slægjur á undirlendi dalsins. Að sunnan markast Kjósardalurinn af Esjudölum, sem ganga inn í Esju að norðanverðu og lýst verður í annarri grein í þessu riti. Sumir dalirnir eru býsna langir. Að austanverðu er Skálafell og norðan þess Kjósarskarð og austur af því er Kjósarheiði. Sýslumörkin að norðan og austan liggja um hálendið upp af bænum Hækingsdal er Kjölur nefnist. Þaðan liggja þau niður í Botnsdal og út eftir Hvalfirði endilöngum. Í Landnámu segir, að Valþjófur, sonur Örlygs hins gamla Hrappssonar landnámsmanns á Esjubergi, hafi byggt bæ að Meðalfelli. Er hann því landnámsmaður Kjósarinnar, hann „nam Kjós alla” segir orðrétt.

Í Landnámu er að vísu getið annarra landnámsmanna á svæðinu. Hvamm-Þórir nam land „á milli Laxár og Forsár og bjó í Hvammi”. Fleiri koma við sögu og verður þeirra sumra hverra getið hér á eftir. Það er því ekki úr vegi að hefja þessar hugleiðingar um Kjósina með því að litast um þaðan, sem fyrsti landnámsmaðurinn reisti bæ sinn, Meðalfelli. Lítið hefur umhverfið breyst frá tímum Valþjófs að öðru leyti en því, að húsum hefur fjölgað og vegir batnað auk ýmissa annarra breytinga á yfirborði jarðarinnar, en stóru drættirnir eru óbreyttir. Að baki bænum er samnefnt fjall, 345 metrar á hæð og gefur umhverfi sínu óneitanlega mikinn svip. Sunnan við bæinn er Meðalfellsvatn, tveir ferkílómetrar að flatarmáli. Þar hefur ævinlega verið nokkur silungsveiði og jafnvel laxveiði.

Nokkurt fuglalíf er á vatninu og svo lengi, sem elstu menn rekur minni til, hafa ein álftahjón helgað sér vatnið á sumrin og lina þá fyrst á varðstöðunni er halla tekur að hausti. Úr vatninu rennur Bugða, 3 km að lengd, uns hún sameinast Laxá skammt ofan við Laxfoss. Mikil laxveiði er í Bugðu og einnig er þar fuglalíf töluvert. Á vorin má sjá þar straumandahóp og fram eftir sumri. Skammt neðan við upptök Bugðu í vatninu rennur Dælisá í hana, sú á kemur úr Eilífsdal. Dælisá og Bugða skilja að Reynivalla- og Saurbæjarsóknir. Í Meðalfellsvatn renna tvær ár, Flekkudalsá og Sandsá.

Við vatnið eru auk Meðalfells bæirnir Hjarðarholt, sem er lítið kot í Meðalfellslandi, og Flekkudalur, sunnan vatnsins í mynni samnefnds dals. Suðaustan við vatnið er Grjóteyri. Austan vatnsins eru Eyjabæirnir tveir; þeir standa í miðjum Eyjakróknum. Sunnan þeirra opnast Eyjadalurinn, sem Sandsá kemur úr og í mynni hans er bærinn Sandur.

Norðaustan við Eyjar er nýbýlið Hjalli. Umhverfis vatnið eru margir sumarbústaðir. Frá Meðalfelli sér inn í Eilífsdal, sem liggur beint í suður og er einn Esjudala. Sá dalur er stundum nefndur Meðalfellsdalur. Vestan til í honum miðjum er bærinn Eilífsdalur og vestan við hann opnast Miðdalur, sem opnast til sjávar vestan og norðan Eyrarfjalls.

Í Miðdal er samnefndur bær, sem fyrr á tímum var kirkjustaður (Mýdalur), utan við hann eru Morastaðir og yst landnámsjörðin Kiðafell, eftir þeim bæ heitir áin, sem liðast eftir dalnum, Kiðafellsá. Vestan árinnar blasa Tindstaðir við (Ytri-Tindstaðir), sem eru í Kjalarneshreppi og eiga kirkjusókn að Saurbæ á Kjalarnesi.

Nánar segir frá Esjufjöllum, sem hér gnæfa, annars staðar í þessu riti. Leiðin að sunnan, þ.e. um Kjalarnes, Tíðaskarð og Melahverfi og síðan inn í Miðdal og út Eilífsdal og þaðan yfir Laxá, var fyrr á tímum ekki síður farin en norðan Eyrarfjalls.

Talinn er hálftíma gangur inn Flekkudal en tveggja tíma gangur inn Eyjadal og má komast austur úr honum yfir í Trönudal, sem er lítill dalur hátt í fjallinu austan við Möðruvelli. Víða eru leiðir hér upp á Esju.  

Innsveitin

Þegar komið er inn fyrir Meðalfell er Eyjatjörn á hægri hönd, þar er fagurt lífríki. Til vinstri sér yfir Laxá, hvar Reynivallaháls kemur í ljós. Sandfell sést vel héðan af hæðinni. Bærinn Vindás gægist út undan hólunum, sem umkringja hann, þaðan er víðsýnt út Laxárdalinn.

Meðalfell er forvitnilegt uppgöngu þótt slíkri göngu verði sleppt að þessu sinni. MeðalfellsvatnAuðkleifast er það austan að upp svonefnda Klauf. Neðan við Klaufina lá leiðin til kirkju úr Króknum (Eyjakrók) og var beygt fyrir Klaufina til útnorðurs og farið yfir Laxá á Sjálfkvíavaði, sem er suðsuðvestur af Vindási. Þar er einn veiðistaðanna í ánni, en ofan við hann taka við margir góðir veiðistaðir á litlu svæði: Gaflhylur, Túnhylur, Berghylur, Hvassneshylur, Helgufljót og Helguholtskvörn. Síðastnefndi staðurinn er kenndur við Helguholt, sem er sunnan við ána, þar sem vegurinn beygir til landsuðurs í átt til Möðruvallabæjanna.

Fram undan blasa við bæirnir á Möðruvöllum, á vinstri hönd eru Mörðuvallaeyrar, en Möðruvallaháls sunnan vegar. Samkvæmt Landnámu nam Torfi Valbrandsson land á Möðruvöllum.

Næsti bær austan við Möðruvelli er Írafell, sem stendur undir samnefndu felli norðan bæjarins, 260 metra háu. Írafell er kannski þekktast fyrir drauginn Írafellsmóra, sem frá er sagt í þjóðsögunum. Þegar komið er fram hjá Möðruvöllum er ekið skammt frá Kjósarrétt norðan vegarins. Neðan við réttina er Norðlingavað á þjóðleiðinni, er dregur nafn af Svínaskarði. Norðlingavað varð Oddi lögmanni Gottskálkssyni, þýðanda Nýja testamentsins á íslensku að aldurtila árið 1557 eins og frá er skýrt í Kjósarannál (þar er vaðið kallað Norðlendingavað).

Austan við réttina er Svínadalsá og sameinast hún Laxá litlu neðar. Sunnan réttarinnar eru vegamót Svínadalsvegar, og liggur sá vegur til suðurs, fyrst í gegnum sumarbústaðahverfið í Norðurnesi, sem er nyrsti hluti Stargrassness, eins og nesið milli Svínadalsár og Trönudalsár allt inn að Múla heitir. Sú leið er aðeins fær jeppum fyrsta spölinn en er eingöngu reiðvegur eftir það. Svínadalur er grösugur og fagur dalur. Vestari hlutinn tilheyrir Möðruvöllum en eystri hlutinn Írafelli.

Þegar haldið er inn Svínadal er Múlinn milli Svínadals og Trönudals á hægri hönd en Hádegisfjall á þá vinstri. Það fjall nefnir sr. Sigurður Sigurðsson reyndar Írafellsfjall í sóknarlýsingu sinni frá 1840. Ofan af Hádegisfjalli er útsýni gott yfir Kjósina. Sunnan við það er Skálafell, sem væntanlega er kennt við skála Ingólfs Arnarsonar: „Ingólfr lét gera skála á Skálafelli”, segir í Landnámu. Vestan við Skálafell tekur svo Svínaskarð við og vestan þess eru Móskarðshnúkar í Esju.

Þegar komið er yfir Svínadalsá á brúnni við réttina er ekið um Írafellsnes og síðan út á Reynivallaveg. Áður en haldið er austur úr um Kjósarskarð skal litið upp að Vindáshlíð, sem er austan við Sandfell í kjarri vaxinni hlíðinni.

Í Vindáshlíð eru sumarbúðir K.F.U.K. í Reykjavík. Þar dveljast nú hundruð stúlkna á hverju sumri í nokkrum Vindárshlíðdvalarflokkum. Hlíðarmeyjar, eins og þær kalla sig í daglegu tali, komu fyrst í Kjósina 1947 en þá lá akvegurinn aðeins inn að Möðruvöllum og nutu þær aðstoðar Möðruvallabænda við að komast yfir ána og að fyrsta tjaldstæði sínu í Hlíðinni.  

Um 1950 fengu þær land undir sumarskála úr jörðinni Vindás. Reistu þær skálann á skömmum tíma og hafa síðan aukið við húsakostinn eins og raun ber vitni um. Árið 1957 var þeim gefin gamla kirkjan í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og var hún flutt inn í Vindáshlíð og reist þar að nýju og endurbyggð að innanverðu. Kirkjan var endurvígð 16. ágúst 1958.

Lítill landskiki úr Hækingsdalslandi austan Skiptagils, sem er innan við skálann, tilheyrir einnig sumarbúðunum í Vindáshlíð. Allstór skógræktargirðing er umhverfis svæðið, sem Hlíðarmeyjar hafa til umráða og hafa þær plantað þar trjám í stórum stíl og séð um viðhald á girðingum, á seinni árum með nokkurri aðstoð Skógræktarinnar.

Frá Vindáshlíð er fagurt útsýni suður á bóginn inn í Svínadal. Handan Laxár í átt til Írafells er Stelpuás, sem svo er nefndur frá fornu fari. Þá er fagurt útsýni í austurátt inn að Hlíðarási og Hækingsdal, þangað sem ferðinni er næst heitið.

Þegar ekið er brott frá Vindáshlíð er Laxá á vinstri hönd, þar sem hún rennur úr gljúfri löngu og beinu. Beint niður af sumarbúðaskálanum sveigir hún til suðurs. Rétt ofan við beygjuna er Pokafoss, sem er sérkennilegur foss. Austan við fossinn rennur þverá ein í Laxá, sem Selá heitir; kemur hún úr Selárgljúfri. Austan þess gils er Uxagil og enn austar, skammt frá bænum Hlíðarási, er Kýrgil. Sé farið upp Selárgljúfur er komið í Neðri-Flagardal, vestan til í honum er Hornafell upp af Seljadal.

Þegar ekið er austur Kjósarskarðsveginn er Írafell á hægri hönd og austan þess bærinn Fremri-Háls, sem er innsti bærinn í hreppnum. Austan bæjarins er Hálsá, sem rennur í Laxá. En norðan vegar er bærinn Hækingsdalur og upp af honum í landnorður er Þverárdalur, sem kenndur er við Þverá, sem í honum rennur.

Austan við Þverá er lítill lækur, er Ásalækur nefnist, handan hans er Grenhlíð allt að Grindagili. Undir Grenhlíð eru grasflatir og góður reiðvegur en það á brátt að breytast. Austan við Grindagil er Hríshvammur í brekkunum en austan hans eru gljúfur mikil í Laxá, sem heita Þrengsli. Í þeim er Þórufoss, stærsti fossinn í ánni. Upp af Þrengslum er Geitahlíð en austan hennar er Brattafellsgil og þar austur af er svo þriðja nafnkennda hlíðin á þessum slóðum, Brattafell. Neðan við það eru Selflatir, kenndar við sel, sem þar var fyrr á tímum.

Um það bil miðja vegu milli Þórufoss og Stíflisdalsvatns er Sýsluhólmi, einnig nefndur Þinghólmi fyrr á tímum; þar er og gamalt vað, sem Hólmavað heitir. Sunnar árinnar er svo Kjósarskarðsvegur og sunnan hans er Stóra-Sauðfell, um það liggja sýslumörkin.

En nú skal ekki haldið lengra í austurátt að sinni, heldur vikið að einu þeirra fjalla, sem mestan svip setja á sveit þessa, en það er Reynivallaháls. 

Reynivallaháls

Hálsinn dregur nafn sitt af kirkjustaðnum, sem nánar segir frá síðar. Hann liggur í landsuður frá Hálsnesi í sveig inn að Fossárdal og Seljadal, um það bil tíu kílómetra leið. Austan við er svo Þrándarstaðafjall, nyrst, þá Hornafell og Kjölurinn, þar sem landið hækkar verulega og nær 738 metra hæð, þar sem hæst ber. Reynivallaháls er nokkuð jafnhár, hæstur er hann um miðbikið, á Grenshæðum, sem eru í 425 m hæð. Austan við Vindás rís svo Sandfell upp úr Hálsinum og er það 395 m yfir sjávarmál. Þar er Hálsinn breiðastur.

Fossinn í FossáVíða er Hálsinn klettóttur mjög, einkum að norðanverðu upp af Grænuvík og Hvammsvík, þar sem þverhníptir klettar gera hann ókleifan. Sunnan til er brúnin einnig víðast hvar klettótt og illkleif. Hvarvetna eru hlíðarnar grasi grónar neðan til og sama er raunar að segja um mikinn hluta Hálsins uppi, þar sem víðast hvar skiptast á balar og flóar. Vestan við miðju er hann þó gróðurlítill þótt vestan Grenshæða séu gróskumiklar spildur, sem féð kann vel að meta.

Sunnan undir Hálsinum eru nokkrir bæir. Yst eru Hálsbæirnir, Neðri-Háls, Háls I og Háls II. Þá taka við Grímsstaðir, sem eru nýbýli úr landi Valdastaða, sem taka við þar fyrir innan. Þá er Sogn, sem í fornum skjölum heitir ýmist Sorn eða Sofn. Innan hans eru Reynivellir. Nokkru innar er Vindás fjær fjallinu en hinir bæirnir. Allt eru þetta frjósamar jarðir með góðu beitilandi, slægjur hafa löngum þótt bestar á bökkum og nesjum við ána. Löngum hefur dalurinn þótt votlendur vestan við Vindás en framræsla síðustu áratuga hefur bætt þar verulega um. Yfir Hálsinn liggja þrjár fornar alfaraleiðir, sem nú verður getið nánar. Vestast er Kirkjustígur, beint upp af kirkjunni, þar fyrir innan er Gíslagata á landamærum Reynivalla og Vindáss, og loks þjóðleiðin forna, Svínaskarðsvegur, austan til í hlíðum Sandfells. Allar liggja þessar leiðir að lokum niður að Fossá norðanvert í Hálsinum. 

Kirkjustígur

Kirkjustígur er beint upp af Reynivallakirkju milli Kippsgils að vestan og Þinghússgils að austan. Hann er allbrattur og er þó oft farinn bæði af gangandi fólki og ríðandi, sem teymir hesta sína upp stíginn eða niður.
Leiðin var fjölfarin fyrr á tímum, ekki hvað síst af þeim, sem sóttu kirkju frá bæjunum í Brynjudal, Fossá og Hvítanesi. 

Efst á stígnum er grösug hlíð, er Fannahlíð nefnist. Ofan við hana er lind, sem heitir Gvendarbrunnur. Vestan við Kirkjustíginn hækkar landið í átt til Grenshæða en stígurinn heldur áfram til landnorðurs, skáhallt yfir Hálsinn. Langimelur heitir melurinn á miðjum Hálsinum. Við syðri enda melsins er Prestsvarða en við þann nyrðri eru Teitsvörður. Þegar halla tekur norður af er hægt að fara í átt til Hvítaness, það er leið sú er farin var til kirkju fyrr á tímum frá þeim bæ. 

Útsýni efst á Krikjustígnum er forkunnarfagurt og gott að staldra við þar og skoða, það sem fyrir augu ber. Það fyrsta, sem grípur augað er Laxá, þar sem hún liðast út dalinn í mjúkum hreyfingum og má vel átta sig á hinum frjósömu nesjum, sem hún myndar. Beint niður af Reynivöllum er Stekkjarnes norðan árinnar, þar fyrir vestan og sunnan ár er Hurðarbaksnes, vestan þess og norðan árinnar er Kotabakki og Garðsnes austast, þá Baulunes. Vestan þess sunnan árinnar er nes mikið er heitir Hrosshólmi, vestan og sunnan til í honum er farið yfir Heyvað og er þá komið yfir á Suðurnes. Handan þess er svo Fauksnes, sem er milli Laxár og Bugðu, en sjá má hvar hún rennur í Laxá gegnt Ásgarði, barnaskólanum, sem stendur á Valdastaðaás. 

Suður af Suðurnesi eru tveir bæir, Káranes nær ánni en Káraneskot fjær. Káranesfljót nefnist sá hluti Laxár, sem rennur vestur með Suðurnesi, norðan til í því er vað á ánni er heitir Laxavað. 

Undir Meðalfelli má sjá tvo bæi, austar eru Þorláksstaðir en vestan þeirra er Hurðarbak. Utan til í Meðalfelli er klettur einn mikill hátt í brúninni er Hurð nefnist. Austan við Káraneskot má sjá sef nokkuð er Káranessef heitir, enn austar er mun stærra sef, það er Hurðarbakssef, Valdastaðasef er þriðja sefið á þessum slóðum, það er niður undan Grímsstöðum. 

Sé horft lengra til vesturs blasir Laxvogurinn við og Laxárnesbærinn; norðan vogsins eru Hálsbæirnir. Sunnan til í vognum vestan Laxárnes er Harðbali, upp af honum er Eyrarfjallsvegur. Í vestri blasir Akrafjall við og sjá má allt vestur í Melasveit. 

Esjan gægist yfir Meðalfellið og sé horft í austur tekur við Möðruvallaháls, Skálafell, Hádegisfjall og nær er svo Vindás. 
Þegar haldið er áfram norður yfir Hálsinn tekur við fagurt útsýni til norðurs yfir Hvalfjarðarstrandarfjöllin og lengra til norðurs má sjá Ok og Langjökul en austan við Hvalfjörð eru Þyrill, Múlafjall, Hvalfell og Botnssúlur.

Gíslagata

Önnur leið yfir Hálsinn er á landamerkjum Vindáss og Reynivalla upp með Gíslalæk, það er Gíslagata. Hún hefst á Gíslholti, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur hafið skógrækt og komið sér upp bækistöð. Síðan liggur vegurinn eftir vel merkjanlegri slóð upp á Hálsinn. Efst taka svo við Gíslagötudrög. Vegurinn beygir til austurs þegar upp er komið og er þar farið yfir Gíslalækinn og haldið síðan nánast beint til norðurs yfir Hálsinn.

Austan götunnar eru Dauðsmannsbrekkur, sem svo heita vegna þess að þjóðsagan greinir frá stigamennsku Magnúsar bónda á Fossá, sem sat þar fyrir ferðamönnum á 18. öld. Þegar upp á Hálsinn er komið blasir Sandfell við í suðaustri og vestan við það er Sandfellstjörn. 

Svínaskarðsvegur

Svínaskarðsvegur dregur nafn sitt af Svínaskarði milli Skálafells og Móskarðshnúka í Esju og segir frá syðri hluta leiðarinnar annars staðar í þessari bók. Vegurinn liggur út Svínadal, yfir Laxá og upp með Vindáshlíð austan Sandfells og er leiðin auðfundin enda oft farin á sumrin, einkum af hestamönnum en einnig göngumönnum.

Leiðin sameinast af Gíslagötu norðan til í Hálsinum. Svínaskarðsleið liggur norður af sunnan við svonefnda Hryggi, síðan beygir leiðin til norðurs með fram Dauðsmannsbrekkum, sem eru þá á hægri hönd og sér þaðan niður í Seljadal. Það er grösugur dalur og sér enn móta fyrir rústum bæjar, er þar stóð í miðri austurhlíðinni; þar bjó síðast Gísli Einarsson ásamt fjölskyldu sinni 1897-1921. Þar er gott sauðfjárland. Austan Seljadals er Hornafell en norðvestan við bæjarrústirnar eru Hjaltadalur, í honum rennur Hjaltadalsá. Í ánni er Folaldafoss. Eftir Seljadal rennur Seljadalsá, sem breytir um nafn eftir að Hjaltadalsá hefur sameinast henni og heitir þaðan í frá Fossá og dalurinn Fossárdalur.

Leiðin liggur sem fyrr segir ekki niðri í dalnum heldur vestan til í honum, uns hún fer niður í lítið dalverpi er Sperribrekkugil heitir og er ársprænan Mígandi í því gili. Við dys eina, sem er rétt ofan við Míganda, sameinast Svínaskarðsleið Gíslagötu.

Þegar komið er niður í Fossárdalinn liggur leiðin eftir vesturhlíð Þrándarstaðafjalls, eftir svonefndum Reiðhjalla og beygir síðan til austurs inn á við í átt til Brynjudals. Önnur leið liggur svo til vesturs.

Í Fossárdal er forvitnilegt að svipast ofurlítið um og skoða gömlu fjárréttina niðri við ána, um það bil 250 metra frá Fossáréttsteypta veginum. Niðri við veginn er svo önnur hlaðin rétt í Kálfadal, hún er allmiklu yngri en hin. Fossinn neðst í ánni nefnist Sjávarfoss.

Loks mætti nefna eina leið enn upp á Hálsinn að sunnanverðu, milli Gíslagötu og Svínaskarðsvegar, suðvestan til í Sandfelli, skammt austan Vindáss. Þetta er allbrött leið, sem liggur upp á Hálsinn vestan við Sandfell inn á Gíslagötu. Selstígur, en svo heitir þessi leið, lá upp að Vindásseli í Seljadal framanverðum.

En nú er rétt að beina athyglinni að vatnabúskap Kjósarinnar og hverfa um sinn aftur suður yfir Reynivallaháls.  

Laxá

Laxá í Kjós er meðal fengsælustu laxveiðiáa landsins. Hún hefur verið friðuð fyrir netum allt frá aldamótum og í hana hafa menn sótt lax sér til matar um langan aldur. Laxá á upptök sín í Stíflisdalsvatni í Þingvallasveit. Laxá um Ása

Stíflisdalsvatn (sem Skúli fógeti nefnir Silungavatn en Björn Bjarnarson Stíflisvatn) er í 178 m hæð yfir sjávarmáli og er 1,5 ferkm að flatarmáli. Skammt neðan við vatnið er lítill hólmi, Sýsluhólmi, og um hann liggja sýslumörkin. Það er aðeins þegar áin er í vexti, sem hann skilst frá nyrðri bakkanum, annars er hann landfastur.

Um það bil hálfum öðrum kílómetra frá upptökum árinnar er allhár foss, er Þórufoss nefnist og þangað alla leið gengur laxinn. Lengd Laxár er 25 km og aðrennslissvæði hennar er 211 ferkm sé aðrennslissvæði Bugðu talið með en það er 64 ferkm. Áin öll er í umsjá Veiðifélags Kjósarhrepps, sem flestar jarðir í hreppnum eiga aðild að. Veiðifélagið var stofnað árið 1949. Á félagssvæðinu eru allar vatnafisktegundir hérlendar, lax, bleikja, urriði og áll. Mörg undanfarin ár hefur áin verið leigð einum aðila, sem síðan hefur selt veiðileyfi til einstaklinga. Alls eru 10 stangir leyfðiar í ánni og veiðidagar eru 90 á hverju sumri.

Á tímabilinu 1949-1968 veiddust að meðaltali um 1000 laxar á veiðitímanum en 1969-1979 að meðaltali um 2000 laxar á ári.

Fyrsta laxaklak á Íslandi var reynt í Kjósinni. Það var hinn framsýni höfuðklerkur sr. Þorkell Bjarnason, prestur á Reynivöllum og alþingismaður um skeið, sem fékk til liðs við sig einn helsta fiskifræðing Dana árið 1884 til þess að gera tilraunir með laxaklak. Fiskifræðingurinn dvaldist um vikutíma að Reynivöllum í fyrsta skiptið en sendi þá í staðinn fyrir sig sænskan starfsbróður sinn til þess að annast um klakið. Frá þessu er skýrt í samtímaheimildum en einnig hefur Albert Erlingsson ritað sögu þessa brautryðjendastarfs í grein í Veiðimanninum 1948. Þar segir m.a.:  „Hann [þ.e. sænski fiskifræðingurinn] fór upp að Reynivöllum 23. sept. og fór þegar að láta smíða kassa, 3ja álna langan, 2ja álna háan og 1 3/4 álna breiðan, rifur voru á honum milli borðanna, nema í lokinu, þumlungsbreiðar, til þess að vatnið gæti runnið í gegnum hann. – Kassa þessum var komið fyrir á hentugum stað í Laxá. Síðan var farið að veiða, til þess að fá hrogn. 13 hrygnur og 18 hængar náðust, og voru geymd í kassanum. Þá var og byggður kofi, og veitt í hann lindarvatni, og þar voru tilfæringarnar til klaksins.“ Síðan er skýrt nánar frá tilfæringunum. En klakið á Reynivöllum tókst vel og var 21000 laxaseiðum sleppt í Laxá og Bugðu 23. og 25. maí vorið eftir. Skömmu eftir 1920 skoðaði Þórður Flóventsson ummerki þessa fyrsta laxaklaks á Íslandi og hefur hann lýst því í bókinni „Laxa- og silungaklak á Íslandi“. En þrátt fyrir hinn góða árangur lagðist starfsemin niður eftir tvö ár vegna fjármagnsörðugleika, en engin fyrirgreiðsla fékkst úr opinberum sjóðum. Vorið 1984 var hafist handa um fiskeldi í Kjós á nýjan leik, í Hvammsvík. Laxárdalur, séð til Meðalfells

Í Laxá og Bugðu eru um 85 veiðistaðir. Sem fyrr segir er Bugða einnig góð veiðiá, hún rennur úr Meðalfellsvatni og sameinast Laxá skammt austan við Ásgarð. Í Laxá eru fimm fossar, neðst er Sjávarfoss, rétt ofan við brúna er Kvíslarfoss, þá Laxfoss, Pokafoss er rétt innan við Vindáshlíð og efst er svo Þórufoss, sem er þeirra hæstur.

Þótt áin láti ekki mikið yfir sér hversdagslega og renni lygn í farvegi sínum, þá getur hún orðið að vatnsmiklu stórfljóti á skömmum tíma í miklum rigningum og flóðum. Er Laxárdalurinn þá engu líkari en stöðuvatni yfir að líta enda dalurinn æði flatur og árfarvegurinn virðist víða jafnhár ef ekki hærri landinu nær þjóðveginum norðan til í dalnum.

Laxá var fyrr á tímum erfiður farartálmi og getur sr. Halldór Jónsson þess oft í endurminningum sínum, hvernig áin setti strik í reikninginn. Þegar öll vöð voru ófær var oft farið yfir Laxvoginn en á vetrum kom það fyrir, að hann var ófær vegna sjávar eða ísa.

Það var ekki fyrr en árið 1932, sem Laxá var brúuð neðan við Kvíslarfoss. Sama ár voru byggðar brýr á Fossá skammt vestan við Útskálahamar, sú á gat verið hinn versti farartálmi, og það ár var Brynjudalsá einnig brúuð og sömuleiðis Botnsá. Kiðafellsá var hins vegar brúuð nokkuð fyrr eða 1929 (sú brú var endurbætt 1947). Þess má geta, að það var ekki fyrr en árið 1929 að vegur var lagður að Tíðaskarði, sem fær var bílum. Árið 1931 var ruddur akfær vegur fyrir Hvalfjörð. Innansveitar komu vegaframkvæmdir í kjölfarið. 1934 var Bugða brúuð vestan Meðalfells og á næstu árum tókst að brúa ýmsar aðrar ár og bæta vegakerfið að örðu leyti. 

Laxvogur

Laxá hafnar að lokum í Laxvogi. Vogur þessi hefur reyndar gengið undir ýmsum nöfnum. Sr. Sigurður Sigurðsson nefnir Laxárvogurhann Laxavog (1840), Jón O. Hjaltalín kallar hann Hálsvík (1746) en Björn Bjarnarson segir Laxárvogur (1937). Í daglegu tali er hann nefndur Laxvogur. Þar er útfiri mikið og lífríki fjölskrúðugt og mikil náttúrufegurð. Fyrr á tímum áttu margir erindi að þessum vogi. Neðst í ánni er Sjávarfoss eða Sjóarfoss eins og hann hét áður fyrr. Skammt ofan við hann rennur Bollastaðalækur í ána, þar er og Bollastaðavað og ítið eitt neðar er annað vað, er Höklavað nefnist.

Rétt við Sjávarfoss norðan megin er klettur (Klöppin), sem bátar lögðust upp að fyrr á árum áður en bílfært varð fyrir Hvalfjörð. Á bátum þessum var fluttur varningur, fólk og á sumrin hey úr Kjósinni á vegum fólks úr Reykjavík, sem hafði slægjulönd á leigu í sveitinni.

Annar lendingarstaður var Harðbali, sem er sunnan við voginn um miðbik hans. Austan vogsins er Laxárnesland og Karl og Kerling neðan Hestaþingshólbærinn Laxárnes í suðausturhorninu, norður af honum er Laxárnestangi en vestur af bænum er Suðurnes og síðan enn vestar Skorárvík, þar sem Skorá rennur til sjávar en hún kemur upp í Eyrarfjalli. Fyrir miðjum voginum blasir við félagsheimilið Félagsgarður undir Laxárnesásnum, það var tekið í notkun árið 1945.

Fyrr á þessari öld og raunar miklu lengur sóttu sjómenn af Suðurnesjum og víðar að krækling til beitu upp í Hvalfjörð. Einn staðanna er Laxvogur. „Þótti hvergi betra að taka krækling en þar“, segir Erlendur Björnsson í endurminningum sínum (Sjósókn, Rvík 1945). Þótti kræklingur þar feitur og skeljarnar hreinar að utan. Aðrir staðir voru Stampar, sem eru norðan við Hálsbæinn, þar var kræklingurinn hins vegar seinteknari og þurfti ætið að kafa eftir honum. Næsti staður var svo í Hvammsvík, þá Hvítanes, Fossá, Brynjudalsvogur og Botnsvogur. Nú tína menn helst krækling sér til matar við Fossá.

Utan til í Laxvogi, rétt sunnan við miðju, er Maríusker, sem tilheyrt hefur Reynivöllum frá alda öðli. Norðan til í voginum innanverðum er Hálshólmi neðan við Hálsbæina. Utan og norðan við þá er svo Búðasandur, sem nú verður vikið að.

Maríuhöfn

Fram undan Reynivallahálsi er Hálsnes, efst á því liggur þjóðvegurinn. Gamli vegurinn lá ofar í hlíðinni í svokölluðum Baulubrekkum. Þótti það hinn háskalegasti vegur, einkum í snjó og hálku.

Hálsnesið blasir við fram undan, þegar litið er út Hvalfjörðinn. Norðan til á því er flugbraut en sunnan til er einn Minningarsteinn Sólar í Hvalfirðimerkasti sögustaður Kjósarinnar, Búðasandur. Búðasandur er fagur frá náttúrunnar hendi og einhver fegursti staðurinn í sveitinni. Upp af honum er fjörukambur og handan hans lón, sem talið er hafa grynnst og minnkað í tímans rás. Milli lónsins og fjörukambsins eru leifar gamalla mannabústaða og hafa fornleifarannsóknir farið fram á þessu svæði undanfarið en ekki liggur ljóst fyrir um niðurstöður þeirra.

Frá fornu fari var höfn á Búðasandi samkvæmt heimildum. Aðrar hafnir voru á Hvalfjarðareyri vestan við Laxvoginn, í Laxvogi (Hálshólaskipalægi, sem Skúli fógeti nefnir svo, það er vestur undir Hálshólum) og loks var höfn í Hvammsvík. Höfnin á Búðasandi hét frá fornu fari Maríuhöfn, ekki eina örnefnið í Kjósinni, sem minnir á Maríu, en kirkjan á Reynivöllum var helguð Maríu guðsmóður og af þeirri ástæðu m.a. er þessu svo farið.

Á Búðasandi var samkvæmt rannsóknum dr. Björns Þorsteinssonar stærsti kaupstaður landsins á 14. öld. Þangað komu skip frá útlöndum og gátu haft vetursetu vegna lónsins, þangað sem þau voru dregin upp á haustin. Það var ekki hvað Búðarsandur og Búðarhöfuðsíst biskupsstóllinn í Skálholti, sem var mjög mannmargur, sem naut góðs af þessari höfn og hafði skip í förum, sem lögðu þarna upp. En að auki var þessi höfn, sem var hin besta frá náttúrunnar hendi, ákjósanlega í sveit sett til þess að koma varningi á eftirsóknarverðustu kaupstefnu þjóðarinnar, Þingvelli og Öxará um þingtímann, þegar mannfjöldinn safnaðist þar saman í stórum stíl.

Telur dr. Björn, að þessi höfn hafi verið Skálholtsstól öllu hentugri en t.d. höfnin á Eyrarbakka fyrir þær sakir, að leiðin til Skálholts var auðfarnari úr Kjósinni en af Eyrarbakka. Þegar blaðað er í fornum annálum kemur í ljós, að biskupar koma til og frá Hvalfirði, þegar þeir fara utan.

Leiðir af Búðasandi austur á bóginn til Þingvalla og Skálholts voru einkum tvær. Hin fyrri var inn Kjósardalinn og um Kjósarskarð og Kjósarheiði austur til Þingvalla. Þessi leið er auðfarin þótt ekki megi gleyma því, sem gamlar lýsingar gera úr mýrum og þvílíkum farartálmum. Hin leiðin var inn Hvalfjörð og upp úr Brynjudal – eða Botnsdal – yfir Leggjarbrjót til Þingvalla vestan við Ármannsfell.

Brynjudalur

Í Landnámu segir svo um landnámsmennina Hvamm-Þóri og Ref hinn gamla: „Hvamm-Þórir nam land á milli Laxár ok Inn Brynjudal í SúlurForsár ok bjó í Hvammi. Þórir deildi við Ref inn gamla um kú þá er Brynja hét. Við hana er dalurinn kenndr. Hon gekk þar úti með fjóra tigu nauta, ok váru öll frá henni komin. Þeir Refr ok Þórir börðust hjá Þórishólum. Þar fell Þórir ok átta menn hans:“ Þórishólar eru í Hvammi, rétt vestan við Hvammsós. Bær landnámsmannsins í Brynjudal, Ref hins gamla, stóð í Múla, samkvæmt Landnámu, en sá bær var í byggð fram til 1600 og sér móta fyrir rústum hans norðan Brynjudalsár gegnt Þrándarstöðum að því er virðist. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var bærinn Múli þá fluttur að Skorhaga.

Þrátt fyrir frásögn Landnámu um uppruna örnefnisins „Brynjudalur“ mætti hugsa sér aðra skýringu á orðinu. Þórhallur Vilmundarson hefur sett fram þá skoðun, að nafnið sé hugsanlega skylt sænska orðinu bryn, sem merkir „svæði eytt af skógareldi“.

Brynjudalur er fagur dalur umgirtur háum fjöllum á báða vegu, fyrir botni hans gnæfa Hvalfell og Botnssúlur, sem sjást mjög langt að. Innsti bærinn, Hrísakot, er í eyði, þar var síðast búið 1964. Það hefur á seinni árum heyrt undir Ingunnarstaði, sem er frá fornu fari stærsta jörðin í dalnum og var kirkjustaður fram til 1800.

Skammt utan við Ingunnarstaði eru Þrándarstaðir undir Þrándarstaðafjalli. Rétt innan við bæinn er Þverárgil; í því rennur ÞrándarstaðirÞverá, sem kemur ofan af Kili. Ekkert nafn er á fossum þeim, er þar eru. Húsagil er mikið gil beint upp af bænum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir, að bænhús hafi staðið á Þrándarstöðum fyrr á tímum.

Ysti bærinn í Brynjudal er Skorhagi, lítil jörð. Skammt vestan við bæinn er SkorhagiKliffoss í ánni, stundum nefndur Skorhagafoss. Í honum er laxastigi og einnig í fossinum sem neðar er og blasir við frá þjóðveginum. Sá foss nefnist Bárðarfoss eða Brynjudalsfoss. Í daglegu tali eru þeir nefndir Efrifoss og Neðrifoss. Sunnan við Bárðarfoss var áður fyrr hellir, er Bárðarhellir nefndist, hann er nú hruninn. Norðan við fossinn gegnt Bárðarhelli var Maríuhellir, hann er nú næstum horfinn en var fyrr á tímum gott skjól fyrir sauðfé.

Dálítil laxveiði er í Brynjudalsá og hefur verið að því unnið á undanförnum árum að efla þar laxastofninn. Mikið lífríki er Merki Veiðihús Brynjudalsáá Brynjudalsvogi og útfiri mikið. Norðan við voginn gnæfir Múlafjall; Rjúpnafjall nefnist brekkan fremst utan í fjallinu.

Þegar ekið er út Brynjudalinn og haldið suður á bóginn verður Fossá brátt á vinstri hönd. Í fjörunni neðan Fossárbrúar má oft sjá fólk við að tína kræklinga. Brátt er komið að Hvítanesi á hægri hönd. Þar má enn sjá mannvirki breska hersins frá umsvifum hans í Hvalfirðinum í seinni heimsstyrjöldinni. Mjög aðdjúpt er í Hvítanesi og góð skilyrði fyrir höfn. Umsvif hersins voru mikil á þessum slóðum og höfðu í för með sér mikla röskun á lífi fólks í nágrenninu. Sumir fengu vinnu hjá hernum. Oft lágu herskip svo tugum skipti á Hvalfirði á þessum árum.

Utan Hvítaness hækkar vegurinn og af hæsta punkti sér niður í Grænuvík og litlu utar í Hvammsvík. Bærinn upp af víkinni heitir einnig Hvammsvík, þar er nú fiskeldisstöð. Norðaustur af bænum er Hvammshöfði. Vegurinn liggur neðan við Skeiðhól, en skammt austan hans má sjá, hvar gamli vegurinn liggur upp á hólinn. Þegar hann er farinn er ekið fram hjá Staupasteini, sem oftast var nefndur Steðji af þeim, sem næst honum bjuggu.

Hvammur og Hvammsvík

Sé nú aftur litið út á nesið norðan vegar má sjá bæinn Hvamm norðan við Hvammsós. Þaðan var oft róið yfir að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd fyrr á tímum. Í Hvammi var kirkja til forna eins og fyrr segir. Mikið og fjölskrúðugt fuglalíf er á þessu svæði. 

Leggjarbrjótur

Skemmtileg gönguferð í góðu veðri er leiðin yfir Leggjarbrjót. Þetta er forn þjóðleið milli Botnsdals og Þingvalla en einnig milli Brynjudals og Þingvalla.

Þegar farið er frá Þingvöllum er haldið upp vestan við túnin í Svartagili, en þar er nú engan bæ að sjá enda lagðist búskapur þar niður fyrir allmörgum árum. Farið er vestan við gil er nefnist Hrútagil upp á lágan ás. Þegar þangað er komið blasir við grösugur dalur, Botnssúlur gnæfa við himin í norðri og lengra til norðausturs sér inn í Svartagil, sem virðist bera nafn, sem því hæfir. Af gili þessu dregur bærinn nafn sitt. Á vinstri hönd gnæfir Búrfell, 783 metrar að hæð, formfagurt og hlýlegt. Gott er að líta í kringum sig og skoða útsýnið af Orrustuhól, sem er rétt austan við götuna. Ekki er vitað hvernig þetta örnefni er til komið. Gagnheiði er til landnorðurs, það er forn þjóðleið.

Fram undan er svo Öxarárdalur og von bráðar kemur gatan að árgili, þar sem Súlnalækur rennur og hafnar að lokum í Öxará, sem sveigir örlítið til vesturs á þeim slóðum og kemur niður af hálendinu allmiklu vestar, þ.e.a.s. fyrir ofan Brúsastaði.

Öxarárdalur er grösugur dalur og fagur með Súlur á hægri hönd en Búrfell á þá vinstri. Leiðin er öll vel vörðuð og engin hætta á að villast af leið í björtu veðri. Þó ber að varast að fara langt frá slóðinni vegna mýrarfenja, sem sums staðar eru á leiðinni. Dalurinn hækkar skyndilega er komið er yfir Súlá (Súlnaá), sem rennur úr Súlnadal norðan við Systusúlu (1090 m á hæð). Súlnadalur er stuttur dalur hátt uppi í fjöllunum. Þar er Bratti, skáli Íslenska Alpaklúbbsins.

Súlá getur verið allvatnsmikil. Hún rennur í Öxará á þeim slóðum, er vegurinn hættir að fylgja Öxará en fylgir Súlá um skeið. Verður leiðin nú grýtt mjög og seinfarin um skeið en þéttar vörður varða leiðina. Hér er komið að sjálfum Leggjarbrjóti, sem er nokkur hundruð metra langur kafli. Hér eru sýslumörkin.

Þegar halla tekur undan norður af blasir Biskupskelda við á hægri hönd fram undan og lækur, sem í hana rennur úr vestri. Yfir læk þennan er sérkennileg steinbrú. Það er vel þess virði að líta vel í kringum sig því að útsýni er hér hvað fegurst á þessari leið.

Súlur byggja að vísu útsýn til austurs og norðurs en í suðri sér í norðurenda Þingvallavatns. Búrfell blasir við í vestri. Sé gengið upp á höfðiann vestan við Biskupskeldu og raunar lítið eitt lengra vestur, sér í Myrkavatn, en þar eru upptök Öxarár. Í norðaustri skammt frá Biskupskeldu er Sandvatn, þar sem Brynjudalsá á upptök sín og ofan við vatnið er Sandvatnshlíðar.

Þegar farið er áfram til norðurs er haldið sem leið liggur og vörðurnar varða fram hjá Biskupskeldu. Sandvatn er fagurt fjallavatn og lætur ekki mikið yfir sér en skyndilega breytir um svip í landslaginu, þegar komið er norður fyrir vatnið. Vestur af Sandvatni að norðanverðu eru Djúpadalsborgir eða Djúpadalshæðir og neðan þeirra er Djúpidalur. Þegar horft er niður dalinn blasa við þrengsli mikil, er Gljúfur nefnast. Í þeim eru þrír fossar, sem heita einu nafni Gljúfurfossar. Hér er hrikaleg náttúrufegurð.

Af Djúpadalsborgum er gott útsýni yfir innsta hluta Brynjudalsins. Syðst er Djúpidalur sem fyrr segir, vestan hans tekur við Lokhamragil og utan þess er Hestgil. Fjallið upp af giljunum er Bollafell sunnan til 510 m að hæð, en Suðurfjall stefnir til útnorðurs.

Vegarslóðin liggur beint norður af Sandvatni austanverðu og brátt er komið að Sandhrygg, þaðan sem gott er að skoða útsýnið yfir Brynjudal, sem blasir héðan við í allri sinni dýrð. Innst í dalnum norðaustanverðum er eyðibýlið Hrísakot, þá Ingunnarstaðir. Utar sér í Þrándarstaði og yst Skorhaga. Þá sést vel út á Brynjudalsvog og Hvalfjörð og utar sér í Hvammsvíkurbæina.

Af Sandhrygg breiðir Múlafjallið úr sér til útnorðurs og nú sést niður í Botnsdal, þangað sem ferðinni er heitið. Hins vegar er hér beint niður undan hin forna leið niður í Brynjudal, leiðin um Brennigil, og er það auðfarin leið gegnum kjarrið. Önnur leið er litlu norðar, það er leiðin upp með Laugalæk, sem dregur nafn sitt af heitri (33 gráður) laug ofarlega í hlíðinni. Þar má sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á þessari öld.

Þessar tvær leiðir voru auðveldustu leiðirnar, þegar farið var yfir Hrísháls niður í Botnsdal, yfir Leggjarbrjót til Þingvalla eða yfir Hvalskarð suður með suðurströnd Hvalvatns og áfram til austurs. Hvalskarð er norðan við Sandhrygg, það er milli Hvalfells (852 m) að norðan og Háusúlu (1023 m) að sunnan. Í Hvalskarði rennur Hvalskarðsá, fyrst í vestur en síðan meira til norðvesturs uns hún sameinast Botnsá rétt innan við Stórabotn.

Norðan við Hvalfell rennur hins vegar Botnsá úr Hvalvatni. Hún er á sýslumörkum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu og jafnframt skilur hún milli Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps. Mörkin liggja síðan um mitt Hvalvatn og síðan um Háusúlu og rétt norðan við Buskupskeldu og um Myrkavatn yfir Kjöl og í Sýsluhólma í Laxá í Kjós.

Vegarslóðin liggur nú þvert yfir Hvalskarð gegnum sauðfjárveikivarnagirðinguna og niður allgóðan veg niður í Botnsdal gegnum kjarr og skóg. Brátt sést Botnsá, þar sem hún kemur úr Stóragili en efst í því er hæsti foss landsins, Glymur. Í Botnsdal er skógrækt mikil, sem síðar verður vikið nánar að og sést hér vel, hve áhrifamikil friðunin hefur verið. Innst í dalnum er Stóribotn, nú í eyði; þaðan er forkunnarfagurt útsýni. Auðvelt er að komast yfir Botnsá, t.d. á stálbrú beint suður af Stórabotni. 

Kirkjustaðir í Kjós

Til forna voru kirkjur á sjö stöðum í Kjósinni. Kirkja var á Ingunnarstöðum fram til 1820 (hún var uppistandandi þegar sr. ReynivallakirkjaSigurður Sigurðsson ritaði sóknarlýsingu sína 1840). Þá var kirkja í Hvammi fram á 18. öld og eru þar örnefni er á hana minna, t.d. Kirkjuklettar (líka til Kirkjusteinn um sama stað) skammt vestan við Hvammsós. Þá var kirkja á Meðalfelli fram yfir aldamótin 1800. Í Eyjum var kirkja til forna og þar eru örnefni, er á tilvist hennar minna, t.d. Kirkjuhjalli og Kirkjuhjallagil. Í Miðdal var kirkja fram eftir öldum, þar eru örnefni eins og Kirkjubrekka og Kirkjuhamar, sem á hana minna, einnig á Eyri og loks á Reynivöllum, þar sem kirkja hefur staðið frá ómunatíð og allt til þessa dags.

Ævafornir máldagar eru til fyrir kirkjurnar á Ingunnarstöðum, Eyjum og Reynivöllum. Það var enginn annar en Þorlákur biskup hinn helgi Þórhallsson, sem setti kirkjunum á Ingunnarstöðum og í Eyjum máldaga árið 1180. Ingunnarstaðir voru á síðari tímum taldir meðal stólsjarða frá Skálholti. Í máldaga kirkjunnar segir m.a., að hún sé helguð heilagri Agötu, og var hún allvel búin, átti m.a. tíðabækur fyrir allt árið, messuföt, silfurkaleik, róðukross, tvenn altarisklæði, altarisbríkurklæði o..fl.

Í Eyjum var Maríukirkja eins og á Reynivöllum. Í máldaga hennar segir, að hún eigi skóg í Svínadal! Þessi kirkja var vel búin gripum, hún átti „búning allan í tjöldum og altarisklæðum, krossum og klukkum og kertastjökum“.

Í Vilkinsmáldaga er getið um kirkju í Mýdal, þ.e. Miðdal, og í sömu máldagaskrá, sem er frá 1397 er að finna máldaga Meðalfellskirkju. Sá Máldagi hefst á þessa leið: „Á Meðalfelli í Kjós er kirkja vígð með Guði, Maríu drottningu og hinum heilaga krossi, Jóni postula, Ólafi konungi, Þorláki biskupi og Maríu Magdalenu“. Um búnað hennar er þess m.a. getið, að hún hafi átt „2 klukkur, útiklukku eina, 2 smáklukkur, 3 altarisklæði og 2 bríkarklæði, kross með líkneskjum, Maríuskrift, Ólafsskrift, Þorláksskrift, eina mundlaug“ o.fl. Loks er rétt að minna á, að auk Reynivallakirkju er nú kirkja í Vindáshlíð, sem að vísu er ekki sóknarkirkja.

Kirkjustaður og prestssetur hefur verið á Reynivöllum frá því elstu heimildir herma. Þar var einnig lengst af miðstöð Hallgrímskirkja í Vináshlíðbyggðarinnar. Um langan aldur var þar þingstaður sveitarinnar og þinghús, þar var rekinn fyrsti barnaskólinn í Kjósinni, hann var stofnaður kringum 1880 og starfaði í sérstöku húsnæði, sem byggt var fyrir skólastarfið. Þá var prestur á Reynivöllum sr. Þorkell Bjarnason, sem áður er getið. Hann var afkastamikill á ýmsum sviðum menningarlífsins, ritaði m.a. Íslandssögu, sem lengi vel var eina Íslandssagan, sem kennd var í skólum landsins. Þá skrifaði hann einnig stórmerka bók um sögu siðbótarinnar hér á landi auk fjölda ritgerða um ýmis efni. Áður hefur verið getið um frumkvæði hans í laxeldi.

Eftirmaður hans var sr. Halldór Jónsson, sem prestur var á Reynivöllum í hálfa öld, frá 1900 til 1950. Sr. Halldór var sömuleiðis merkur prestur á sinni tíð, framfarasinnaður í búskaparháttum og tónskáld ágætt. Oddviti sveitarinnar var hann um árabil. Hann hefur ritað endurminningar sínar, sem eru merk heimild um líf og starf Kjósverja í þá hálfu öld, sem hann var sálnahirðir þeirra.

Kirkja sú, er nú stendur á Reynivöllum, er ein elsta timburkirkja landsins. Hún var reist árið 1859 í tíð sr. Gísla Jóhannessonar og skammt frá hafði bærinn staðið frá ómunatíð, uns hann var færður á svipaðar slóðir og hann er nú, þó lítið eitt neðar, eftir skriðuföll mikil, sem gengu ítrekað yfir staðinn á 17. öld.

Leyfi til þess að flytja kirkjuna í Kirkjubrekkuna, þar sem hún er nú, fékkst þegar núverandi kirkja var reist. Er kirkjan í hefðbundnum stíl síns tíma en þó dálítið breytt frá upphaflegri mynd, hún hefur verið lengd ofurlítið, forkirkju bætt vestan við, og einnig hefur sú breyting verið gerð á henni að innanverðu, að prédikunarstóllinn, sem áður var fyrir ofan altari, var færður á suðurvegg. Þetta var gert skömmu fyrir 1930 og um svipað leyti voru pílárar í skilrúmi milli kórs og skips fjarlægðir og er þar nú aðeins lágur veggur eins og víða í kirkjum frá seinni hluta 19. aldar, sem svipaðar breytingar hafa verið gerðar á. Auk þess hafa bekkir verið endurnýjaðir í kirkjunni. Altaristafla eftir Brynjólf Þórðarson prýðir kirkjuna auk ýmissa annarra merkra gripa. Á Þjóðminjasafninu eru nokkrir góðir gripir úr Reynivallakirkju, m.a. tvær gamlar altaristöflur, kaleikur og patína frá 14. öld, ljósasax og fleiri gripir. 

Skógrækt

Kjósin er talin ákjósanleg til skógræktar. Sér þess og merki frá fornu fari, að þar hefur víða skógur verið. Kjarr er í Botnsdal, Brynjudal, Fossárdal og í Vindáshlíð og þar eru einnig helstu skógræktarsvæðin. Í mógröfum komu fram stórir trjábolir víðsvegar um sveitina.

Um miðbik þessarar aldar gróðursettu margir skógarreiti við hús sín og má víða sjá slíka reiti, gjarnan spöl frá bæ. Nokkrir skógarreitir voru girtir af félagasamtökum og plantað í þá. Svo var t.d. um skógarreit austarlega í Vindáslandi, rétt við Vindáshlíðargirðinguna, einnig í Djúpurðinni ofan við Ásgarð, þar var úr landi Valdastaða og Neðra-Háls. Þá var slíkur reitur í landi Grjóteyrar og við félagsheimilið, Félagsgarð.

Inndalir Hvalfjarðar eru vel fallnir til skógræktar vegna veðursældar. Sr. Halldór Jónsson lýsir veðurfari á Fossá með þessum orðum: „Á Fossá er mjög skjólsamt í hvaða átt, sem er og hvaða veðri, sem er. Þar gerir aldrei ofsaveður eins og víða annars staðar í Kjósinni. Meðan hey voru höfð úti og tyrfð að fyrri tíma hætti, var ekki nauðsynlegt að ganga frá heyjum á sama hátt og annars staðar. Veit jeg ekki heldur til, að ofsaveður hafi gert þar tjón".

Í Fossárdal hefur verið stunduð skógrækt á vegum Skógræktarfélags Kjósarsýslu og Skógræktarfélags Kópavogs frá 1972, er þessi félög keyptu jörðina Fossá.

Í Botnsdal hefur samkvæmt Landnámu verið skógur frá fornu fari. Þar segir frá manni er „hét Ávangr, írskr at kyni. Hann byggði fyrst í Botni. Þar var þá svá stórr skógr, at hann gerði þar af hafskip”. Skógrækt hófst í landi Stórabotns á vegum eiganda jarðarinnar kringum 1965 og var plantað á þrem árum á annað hundrað þúsund trjáplöntum af ýmsum tegundum. Skógrækt ríkisins sá um framkvæmdina. Þá varð hlé á plöntun þar til árið 1980 er aftur var hafist handa og var á næstu árum plantað um 30 þúsund plöntum á vegum eigenda jarðarinnar. Öll hlíðin sunnan árinnar er í landi Stórabotns. Búskapur lagðist niður í Stórabotni 1982.

Í Brynjudal hófst skógrækt fyrir nokkrum árum í skjóli kjarrsins, sem þar er. Á árunum 1975-79 keypti Landgræðslusjóður 3/4 hluta jarðarinnar Ingunnarstaða í Brynjudal og hefur á þeim árum, sem liðin eru, plantað það land allt og eru þar um 80.000 plöntur, sem dafnað hafa allvel.

Í Vindáshlíð hófu Hlíðarmeyjar skógrækt fljótlega eftir að starfsemi þeirra fékk á sig fast mót upp úr 1950 og eru þar nú víða stór og stæðileg tré, sem plantað hefur verið.

Þá hefur verið hafist handa um skógrækt í landi Reynivalla, en ábúandinn, sá er þetta ritar, gerði samning við Skógræktarfélag Reykjavíkur um skógrækt þar á tveim svæðum. Er annað kringum kirkjuna, kirkjugarðinn og bæinn og verður einkum ætlað ábúendum, hitt er austast í landinu og verður opið félögum úr Skógræktarfélaginu til umferðar, þegar fram í sækir. Félagið mun sjá um báða þessa reiti að öllu leyti, á það við um girðingar og viðhald þeirra, plöntun trjáa og eftirlit með þeim. Á Reynivöllum á skógrækt sér nokkra sögu. Sr. Halldór Jónsson var mikill áhugamaur um skógrækt og ritaði um þau mál, m.a. í Kirkjublaðið 1947 og 1948, þar sem hann lýsti hugmynd sinni um „trjárækt kirknanna”. Gekk hann sjálfur á undan með góðu fordæmi og gróðursetti 250 birkiplöntur rétt ofan við kirkjuna á Reynivöllum í holti því, er Hjallholt nefnist.

Niðurlag Í þessari grein hefur verið stiklað á stóru um Kjósina, á mörgu hefur verið tæpt en fáu gerð ítarleg skil enda ekki til þess ætlast af aðstandendum þessa rits. Það vekur athygli þeirra, sem vilja kynna sér sögu sveitarinnar, hversu fátt er um ritaðar heimildir, sem aðgengilegar eru almennum lesanda. Engin samfelld byggðasaga hefur enn verið rituð - að frátöldu ábúendatalinu Kjósarmenn og endurminningum sr. Halldórs Jónssonar – og er þó frá mörgu að segja. Má þar nefna síldarárin í Hvalfirði, minnst hefur verið á hersetuna í seinni heimsstyrjöldinni, kræklingatekju og laxveiði, svo eitthvað sé nefnt. Þeir sem einkum vilja fræðast um landslag og leiðir, mega þó vonandi lesa ritsmíð þessa sér til einhvers fróðleiks. Því ber þó ekki að gleyma, að sjón er sögu ríkari. 

 

 

Getum við bætt efni þessarar síðu?