Fara í efni

Um Kjósarhrepp

Kjósarhreppur
Sveitafélagið er dreifbýlishreppur (landbúnaðarhérað), 284 ferkílómetrar að stærð. Íbúar með lögheimili í hreppnum 1. des 1998 voru 139 og fór þeim fækkandi verulega síðustu ár. Nú hefur orðið viðsnúningur og fer íbúum fjölgandi ár frá ári.

Helstu atvinnugreinar eru framleiðsla mjólkur,eggja, kjúklinga, sauðfjárrækt, ferðaþjónusta og skógrækt. Flestir bæir í Kjós hafa einhver hlunnindi svo sem lax- og silungsveiði. Nokkrir landeigendur leigja lönd undir sumarhús og munu vera um 600 sumarhús í hreppnum.

Fyrir aldamótin 1900 var stofnað menningarfélag sem nefnt var bræðrafélag. Aðal markmið þess var bókakaup og lán á bókum til félagsmanna, bókunum var komið fyrir í þinghúsi hreppsins sem var á prestsetri sveitarinnar á Reynivöllum, hús þetta var lítið timburhús sem notað var sem samkomuhús.

Árið 1915 var Ungmennafélagið Drengur stofnað og var það strax kraftmikið félag sem lét flest framfaramál til sín taka. Er seinna stríði lauk keypti ungmennafélagið kvikmyndahús sem reist hafði verið fyrir hermenn í Hvítanesi í Hvalfirði, húsið var rifið og efnið úr því notað til að byggja félagsheimili. Hús þetta heitir Félagsgarður það var tekið í notkun árið 1946 og var notað til leikfimikennslu fyrir barnaskólann, hreppskrifstofu og allt samkomuhald í hreppnum.

Búnaðarfélag var stofnað á fyrri hluta aldarinnar og er fagfélag fyrir landbúnaðinn og kvenfélag (stofnað 15.mars 1940) sem lætur ýmis mannúðarmál til sín taka. Veiðifélag Kjósarhrepps var stofnað 1948. Sér það um útleigu á vatnasvæði Laxár og Bugðu og um seiðaeldi fyrir sama svæði. Árið 1948 var tekin í notkun stór og glæsilegur heimavistarbarnaskóli (Ásgarður) og var hann fyrsti sérhannaði skóli sveitarinnar, en fram að þeim tíma hafði verið farskóli í Kjósinni. Börnum í sveitinni fækkaði og var barnaskólinn lagður niður 2004. Í dag er þar skrifstofa stjórnsýslunnar og bókasafn sveitarfélagsins í Ásgarði.

Margir áhugaverðir og fallegir staðir eru í Kjós. Brynjudalurinn inn af Hvalfjarðarbotni með birkikjarri innst í dalnum, Botnsúlur blasa við, Brynjudalsá rennur eftir miðjum dalnum ágæt til laxveiða, strandlengjan meðfram Hvalfirðinum, þar er fjölbreytt fuglalíf og kræklingafjörur, Hvalfjarðareyrin sem er sérstakt náttúruundur. Maríuhöfn við Hálsnesið þar sem talið er að fyrsta höfn landsins hafi verið, Meðalfellsvatn, þar er hægt að fá keypt veiðileyfi, þar veiðist bæði lax og silungur.

Margar góðar göngu- og reiðleiðir eru um Kjósina. Þeir sem vilja skoða sveitina akandi geta farið ýmsar hringleiðir, svo sem Miðdalinn kringum Eyrarfjall, af hvalfjarðarvegi upp Meðalfellsveg að Kjósarskarðsvegi, þar sem Reynivallaás blasir við þaðan til vinstri um Laxárdal að hvalfjarðarsvegi eða til hægri Kjósarskarðsveg að Þingvallavegi. Á þeirri leið er Þórufoss 18 metra foss í Laxá og sérstakt gljúfur þar fyrir neðan.

Íbúafjöldi og aldurs- og kynjaskipting

1. janúar 2021 bjuggu alls 250 íbúar í sveitarfélaginu. Aldurs- og kynjaskipting var eins og kemur fram hér að neðan:

Aldurshópur Konur Karlar Fjöldi
0 - 9 ára 8 8 16
10 - 19 ára 14 16 30
20 - 29 ára 10 15 25
30 - 39 ára 14 9 23
40 - 49 ára 14 16 30
50 - 59 ára 24 30 54
60 - 69 ára 17 26 43
70 - 79 ára 12 12 24
80 - 89 ára 2 3 5
90 ára og eldri 0 0 0
Alls 115 135 250
Getum við bætt efni þessarar síðu?