Fara í efni

Fjárhagsáætlun Kjósarhrepps 2024-2027

Deila frétt:

Kjósarhreppur býr við þá sérstöðu að þeir sem þar dvelja eða búa, geta notið þess að vera í kyrrðinni og hæglætinu sem náttúran skartar en á sama tíma vera steinsnar frá þjónustunni og atvinnu-tækifærunum sem þéttbýlið býður uppá. Sífellt fleiri eru að átta sig á þeim tækifærum sem búseta í Kjósinni færir þeim. Á undaförnum árum hefur töluverð uppbygging átt sér stað og heldur áfram. Það er því mjög mikilvægt að stjórnendur sveitarfélagsins séu meðvitaðir um það fjöregg sem Kjósin er og stígi varlega og ígrundað til jarðar í skipulagningu hennar.

Sveitarstjórn Kjósarhrepps leggur nú fram í annað sinn, fjárhagsáætlun á kjörtímabilinu. Ytri aðstæður eru ekki góðar, mikil verðbólga og hátt vaxtastig gera róðurinn þyngri. Í þessari fjárhagsáætlun eru þessar ytri aðstæður töluverð áskorun en ekki síður sú áskorun sem kostnaður við að uppfylla ákvæði nýrra laga um úrgangsmál er í svo litlu sveitarfélagi.

Helstu niðurstöður áætlunarinnar eru eftirfarandi.

Áætlað er að heildartekjur fyrir A- og B-hluta á árinu 2024 verði 559.7 m.kr. og að áætluð rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði verði 426.3 m. kr. Rekstarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliðið er áætluð jákvæð um 133.4. m.kr. Fjármagnsliðir eru áætlaðir neikvæðir sem nemur tæplega 47.5 m. kr. Í áætluninni er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B- hluta verði jákvæð um 62.7 m.kr.

Áætluð fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er 114.5 m.kr. Þessar fjárfestingar eru nánast allar hjá hitaveitunni, Handbært fé í árslok er áætlað 230.4m.kr.

Útsvar verður áfram 14.22 % sem er eitt af þeim lægstu á landinu og álagningar prósenta fasteignagjalda á heimili lækkar til móts við þá hækkun sem hefur orðið á fasteignamati.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að farið verði í endurskoðun aðalskipulags. Þó að núverandi aðalskipulag sé tiltölulega nýtt þá eru að verða það miklar breytingar á samfélagi Kjósarhrepps og atvinnuháttum að rík þörf er á endurskoðun. Í þeirri vinnu er gert ráð fyrir að bæði íbúar og sumarhúsaeigendur geti m.a. haft áhrif með þátttöku í opinni vinnustofu sem verður auglýst.

Í áætluninni er lögð áhersla á að styðja við börn og ungmenni til tómstundastarfs í formi hækkunar á frístundastyrk til þeirra og veruleg hækkun er á heimgreiðslum til foreldra ungbarna. Ferðastyrkur til framhaldsskólanema hækkar og tekjumörk vegna afsláttar af fasteignagjöldum eldri borgara hækka.

Í áætluninni en gert ráð fyrir ýmsum endurbótum á eignum sveitarfélagsins. Gert er m.a. ráð fyrir að setja steyptan ramp við Ásgarð til að auðvelda aðgengi fatlaðra einstaklinga. Í Félagsgarði er gert ráð fyrir að klárað verði að skipta um gler í húsinu, verk sem hófst á síðasta ári og byrjað verður að skipta út klæðningu hússins sem er orðin lúin. Einnig er gert ráð fyrir að settur verði upp rafmagnskassi á lóð Félagsgarðs svo hægt verði að tengja leiktæki, hljóðkerfi og þ.h. þegar skemmtanir eru haldnar á svæðinu.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að sett verði upp leiksvæði fyrir börn og ungmenni á lóð Ásgarðs. Við skipulagningu svæðisins verður lögð áhersla á að skapa notalegt, öruggt og skjólgott svæði sem fjölskyldur geta komið saman á og notið samvista. Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir skipulagningu svæðisins, ærslabelg og bekkjum. Gert er ráð fyrir að svæðið verði fullklárað með fleiri leikækjum og grillaðstöðu á næstu tveimur árum.

Eins og hjá öðrum sveitarfélögum hefur kostnaður vegna hreinlætismála verið að hækka gríðarlega. Með innleiðingu nýrra laga um úrgangmál eru gerðar ríkari kröfur varðandi flokkun á úrgangi og aðgengi íbúa að flokkunarílátum. Fyrir svo lítið sveitarfélag sem Kjósarhreppur er, leggst kostnaður þungt á hvern og einn þjónustuþega þar sem fasti kostnaðurinn er hár. Kostnaður vegna hreinlætismála er innheimtur með þjónustugjöldum og ekki má greiða kostnað við þennan málflokk niður með öðrum tekjum. Breytingar eru gerðar á uppsetningu gjaldskrár, núna er ekki innheimt eitt fast gjald á hverja fasteign, heldur er innheimt fyrir hverja rekstrareiningu, þ.e. gámsvæði, grenndarstöð, rekstur, lögbýli og heimili.

Það eru þung spor að þurfa að fara í þá hækkun sem fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir. Þrátt fyrir þessar hækkanir á úrgangsgjöldum er gert ráð fyrir að málaflokkurinn verði með 4,6 m. kr. halla. Leitað verður allra leiða á næstu mánuðum til að draga úr þessum kostnaði sem óhjákvæmilega getur orðið til þess að draga þarf úr þjónustu. Haft verður samráð við íbúa um þær breytingar sem þarf að gera með opnum íbúafundi.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 miðar að því að skila hallalausum rekstri. Útlit er fyrir að reksturinn á árinu 2023 verði hallalaus eins og stefnt var að. Óhætt er að segja að mikill viðsnúningur hafi orðið í rekstri sveitarfélagsins.

Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir þeirra framlag til reksturs þess og ekki síður fyrir sýnda þjónustulund. Haustið 2022 komu nær allir starfsmenn skrifstofunnar nýir að borðinu og hafa lagt nótt við dag til að setja sig inn í þau mörgu verkefni sem rekstri sveitarfélags fylgir. Gott samstarf hefur verið í sveitarstjórn sem hefur verið samstíga ákvarðanatökum með það að leiðarljósi að bæta þjónustuna við íbúa og gera Kjósina að enn betri stað til að búa á. Framtíð Kjósarinnar er björt og tækifærin mikil.

Að lokum vil ég þakka fyrir góð kynni á árinu sem er að líða og óska íbúum í Kjósarhreppi gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári 

desember 2023

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri

Nánar um fjárhagsáætlun 2024-2027