Fara í efni

Rit-og útgáfunefnd

399. fundur 08. mars 2012 kl. 07:18 - 07:18 Eldri-fundur

Rit- og útgáfunefnd – fundargerð 29. febrúar 2012.

Nefndin kom saman í Ásgarði miðvikudaginn 29. febrúar kl 16:00. Mættir voru Sr. Gunnar Kristjánsson, Pétur Lárusson og Ólafur Engilbertsson sem ritaði fundargerð. Gunnar S. Óskarsson (GSÓ) mætti á fundinn kl 17.

Eina málið á dagskrá var að ræða framvindu ritunar á byggðarsögu Kjósarhrepps sem Gunnar S. Óskarsson ritar.

Rætt var um heimildaskráningu og stöðuna á skjalasafni Kjósarhrepps.Rætt var um að inna GSÓ eftir því hvernig gengi að vinna úr gögnum hreppsins. Rætt var um að athuga hvort endurskoða yrði samningstextann miðað við að lengja samningstímann. Einnig var rætt um að gera þyrfti ráð fyrir tíma til að fara yfir textann og afla mynda og rætt um að auglýsa eftir þeim. Verkið hefur tekið lengri tíma en áætlað var og aðeins verið lagðir fram tveir textar, drög að inngangi og texti um laxveiðideilur. Rætt var um hvar helst bæri að leita mynda. GSÓ mætti á fundinn og lagði fram drög að efnisskipan og 5 viðtöl. Efnisskipanin er þematísk samkvæmt tillögu GSÓ, þættir eins og byggð og mannlíf, stjórnsýslumál, samfélagsmál o.fl. Umræður spunnust um hvort réttara væri að hafa efnisskipanina tímatengda. Sæst var á að hafa tímaröð að leiðarljósi en taka nokkra þætti fyrir út frá þema. Varðandi heimildaskráninguna sagði GSÓ að mikilvæg frumgögn væru tiltæk eins og bréf til hreppsins, fundagerðarbækur og dómsskjöl sem og bækurnar Kjósarmenn og Ljósmyndir o.fl. Hann byggi að því að hluti af skjalasafni hreppsins hefði verið flokkaður, þó óviðkomandi skjöl leyndust sumstaðar innan um. Hins vegar væri stór hluti óflokkaður og óskráður og væri fengur að því að fá einhvern í þá vinnu. Ólafur nefndi að í ferli væri umsókn frá hreppnum um starf við skráningu gagna í samstarfi við Kjósarstofu og bauðst til að kanna það mál. Var vel tekið í það. Fram kom að gögn Búnaðarfélags Kjósarhrepps frá um 1880 eru í Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar og hyggst GSÓ kanna þau. Rætt var um tímamót í vélvæðingu í landbúnaði og frumkvöðla á sviði landbúnaðar í Kjós. GSÓ sagði að vel hefði gengið að taka viðtöl við heimildarmenn en nokkur væru eftir. Hann taldi að skrifin ættu að sækjast vel á næstu mánuðum og að sumarið myndi nýtast vel. Rætt var um við hvað ártöl eigi að miða í byggðarsögunni og var niðurstaðan að 1874, árið sem þjóðin fékk stjórnarskrá, yrði upphafsár og 1960 lokaár sem miðað yrði við. Talað var um að hafa skrá yfir bæi sem væru í byggð á tímabilinu, þó fremur stuttar lýsingar. Ákveðið var að stefna að fundi í lok maí og ákveða þá með endurskoðun samningstextans.

Fundi slitið kl 18.00.