Fara í efni

Sveitarstjórn

203. fundur 10. janúar 2008 kl. 22:38 - 22:38 Eldri-fundur

Ár, 2008, 10. janúar er  fundur í hreppsnefnd Kjósarhrepps, haldinn í Ásgarði

            Kl. 20.00.

 

Mæting; Sigurbjörn Hjaltason, Steinunn Hilmarsdóttir, Guðmundur Davíðsson,

Hermann  Ingólfsson, og Guðný G. Ívarsdóttir.

 

 

 

 

1.      Fundargerð síðasta hreppsnefndarfundar.

 

Oddviti gerði að umtalsefni bókun fulltrúa minnihlutans í lok síðasta fundar,sem fól í sér brigsl og rangar fullyrðingar, og bauð þeim að draga hana til baka.

Minnihluti óskaði eftir að þessum dagskrárlið yrði frestað til næsta fundar.

Oddviti taldi hinsvegar ekki fært annað en að koma sjónarmiðum meirihluta á framfæri nú þegar.

 

 

Fulltrúar meirihlutans gera eftirfarandi bókun vegna bókunar fulltrúa K-listans í fundarlok síðasta hreppsnefndarfundar, þann.10.12. 2007

 

 

Fulltrúar Á-listans harma að  kjörnir fulltrúar í hreppsnefnd Kjósarhrepps láta bóka brigslyrði og fullyrðingar um að oddviti hreppsnefndar fari ekki að lögum varðandi stjórnsýslu sveitarfélagsins. Öll brigsl sem sett hafa verið fram, um að lög hafa verið brotin eiga sér ekki stoð í íslenskri löggjöf.

 

Settar eru fram fullyrðingar sem eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Þá er því haldið fram að ólöglega hafi verið staðið að tilteknum atriðum, án þess að getið sé í hverju brotin felast m.t.t. þeirra lagaákvæða, sem kunna að liggja að baki. Það er lágmarkskrafa, sem gera verður til kjörinna hreppsnefndarmanna, sem brigsla með þessum hætti að gild og óumdeilanleg lagaákvæði liggja að baki og til þeirra sé vitnað ef þau á annað borð væru fyrir hendi.

 

Sigurbjörn Hjaltason

Hermann Ingólfsson

Steinunn Bjarney Hilmarsdóttir

 

Að gefnu tilefni og alvarleika þess sem kom fram í umræddri bókun K-listans er óskað eftir að neðangreind greinargerð oddvita verði færð til bókar í gerðarbók hreppsnefndar Kjósarhrepps.

 

 

 

 

 

 

 

1. Opinn almennur íbúafundur.

 

Fram kemur í bókuninni: - gera verður þær kröfur til oddvita að löglega sé staðið að boðun almennra íbúafunda á vegum sveitarfélagsins. Slíka fundi sé ekki löglegt að boða nema sveitarstjórn hafi samþykkt á löglegum fundi að halda slíkan fund.

 

Varðandi ofangreint, er hér með lýst eftir af hálfu þeirra er létu þetta bóka, hvaða lagastoð liggi hér að baki, til glöggvunar.

 

Þá segir: Engar umræður höfðu farið fram í sveitarstjórn um fyrirhugaðan nýlegan íbúafund og ekkert samráð var haft við minni hluta í sveitarstjórn.

 

Hið rétt í þessu máli er, að á fundi hreppsnefndar þann 8. nóvember þar sem fyrri umræða um fjárhagsáætlun fór fram skýrði oddviti frá því að stefnt væri að halda opinn íbúafund á milli fyrstu og annarrar umræðu um fjárhagsáætlunina. Jóhanna Hreinsdóttir sat fundinn í fjarveru Guðnýjar Ívarsdóttur.

Frekari umræður fóru ekki fram í hreppsnefnd um fyrirhugaðan fund.

Hinsvegar var oddvita minnihlutans, full kunnugt um fyrirhugaðan fund og var upplýstur um hann í óformlegum samtölum við oddvita, sem forystumanns minnihluta hreppsnefndar.

Við val á fundastjóra var leitað til fulltrúa K-listans.

Hafði oddviti fyrst samband við Guðbrand Hannesson og síðar Jóhönnu Hreinsdóttir, en hvorugt áttu heimangengt þennan tiltekna dag. Oddviti setti sig í samband við oddvita minnihlutans  við komu hans á fundinn í Félagsgarði og tjáði honum að hann æski þess að fulltrúi minnihlutans fari með fundarstjórn á fundinum og nefndi Kristján Oddsson í því samhengi og síðar Kristján Finnsson þar sem hvorugt þeirra fyrrnefndu kæmu á fundinn. Hafði hann  ekkert við það að athuga.

Kristján Finnsson varð síðan fundastjóri.

 

Það má vera að samskipti minnihluta og meirihluta hefðu mátt  vera önnur en hér er rakið, en fullyrðing um að ekkert samráð hafi verið haft við minnihluta stenst ekki, við nánari skoðun.

 

Jafnframt var sagt í bókuninni: Ekki var boðað löglega til fundarins.

Sem fyrr er hér með lýst eftir af hálfu þeirra er létu þetta bóka, hvaða lagastoð liggi hér að baki, til glöggvunar.

 

2. Boðun varamans á fund skipulags-og byggingarnefndar.

 

 Í bókuninni segir: Fundur í byggingarnefnd Kjósarhrepps var nú nýlega skipaður þremur fulltrúum Á-listans við ákvörðunartöku en engum frá K-lista. Oddviti sveitarstjórnar boðaði fulltrúa Á-lista inn á fundinn sem varamann fyrir fulltrúa K-lista á nokkurs samráðs við fulltrúa K-lista.

 

Hér er sett fram fullyrðing sem ekki á sér stoð í raunveruleikanum. Oddviti boðar  ekki menn á nefndarfundi og svo var ekki í þessu tilviki. Það er hlutverk formanna nefnda að boða menn á fundi. Til funda í skipulags-og byggingarnefnd boðar byggingarfulltrúi í samráði við formann nefndarinnar.

 

Rétt er að, sem kemur fram í bókuninni að fundinn sátu 3 fulltrúar meirihlutans og engin af hálfu minnihlutans. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að bæði aðalmaður og varamaður tilnefndir af minnihluta voru forfallaðir um stundasakir. Byggingarfulltrúi, sem venjulega  kallar saman fund, kannar þá hverjir eru kjörnir varamenn og boðar næsta kjörinn varamann á fund þannig að fundurinn sé fullskipaður. Þetta hefur gerst áður.

Oddviti hefur haft þann skilning að ófrávíkjanleg regla sé að kallaðir eru inn varamenn, aðalmanns viðkomandi lista. Sé varamaðurinn líka  forfallaður, þá sé réttkjörinn varamaður í nefndinni, þó af öðrum lista sé, boðaður þannig að nefndin verði fullskipuð enda hefur þetta fyrirkomulag verið ágreiningslaust fram að þessu.

 

Vegna þessa ágreinings hefur oddviti þegar sent erindi til Félagsmálaráðuneytisins og óskað eftir úrskurði þess þannig að allri óvissu verði eitt.

 

Í svari ráðuneytisins kemur fram að þessi framkvæmd verði ekki viðhöfð nema að full sátt sé um það innan nefndar og hreppsnefndar.

 

Ef ekki er sátt, sem vænta má í ljósi innihalds bókunar minnihlutans, verður framvegis fundað með tveimur fulltrúum meirihlutans, verða bæði aðal-og varafulltrúi minnihlutans forfallaðir, líkt og gert var á fundi nefndarinnar þann 28.11.sé það  vilji K-listans að viðhafa slíkan flokkadrátt og að K-listinn geti ekki tilnefnt í nefndina fulltrúa sem geta mætt á reglulega fundi hennar.

 

Ekkert hefur  komið fram að hálfu Félagsmálaráðuneytisins né minnihluta hreppsnefndar eða vegna tilstuðlan dómstóla að lögbrot hefur verið framið að hálfu þeirra sem boðað hafa á fundi skipulags-og byggingarnefndar.

 

 

Þá segir í bókuninni: Það er mat fulltrúa K-lista að allar ákvarðanir byggingarfundarins séu ólögmætar.

 

Rétt er að benda á í þessu samhengi að fundargerð nefnds fundar var birt hreppsnefndarmönnum á vefnum og hennar getið í fundarboði til hreppsnefndarfundar þann 8. desember sl. Af hálfu minnihlutans mættu á fundinn Guðmundur Davíðsson og Jóhanna Hreinsdóttir, í fjarveru Guðnýjar Ívarsdóttur.

 

Afreiðsla ofangreindrar fundargerðar  var sameiginleg afgreiðsla allrar hreppsnefndarinnar, að engum undanskildum og til staðfestingar rituðu nefndarmenn nöfn sín undir.

Í þessu ljósi, vekur það nokkra undrun að fulltrúar minnihlutans skuli  mánuði síðar meta það þannig að allar ákvarðanir byggingarnefndarfundarins séu ólögmætar.

Oddviti metur það þannig að ákvarðanir tilgreinds fundar Skipulags-og byggingarnefndar séu í fullu gildi enda staðfestar af öllum fulltrúum í hreppsnefnd Kjósarhrepps.

Sigurbjörn Hjaltason,oddviti

 

2.      Samningur um ráðgjöf um félagsþjónustu

 

Oddviti lagði fram endurbættan samning við Mosfellsbæ um ráðgjöf um félagsþjónustu.

Afgreiðsla; Samningurinn samþykktur af hálfu Kjósarhrepps.

 

 

3.Verklagsreglur vegna samnings um ráðgjafarþjónustu.

 

Oddviti lagði fram verklagsreglur sem afgreiðslu var frestað á, á síðasta fundi.

Afgreiðsla; Samþykktar með fyrirvara um að samningur skv. 2. dagskrálið öðlist gildi.

 

 

4.   Reglur um liðveislu í Kjósarhreppi.

 

Oddviti lagði fram reglur sem afgreiðslu var frestað á, á síðasta fundi.

Afgreiðsla; Samþykktar með fyrirvara um að samningur skv. 3. dagskrálið öðlist gildi.

 

5. Fundagerðir lagðar fram.

 

a)      Skipulags-og byggingarnefndar frá 02.01.2008.

 

Afgreiðsla: Byggingarnefndarhluti fundagerðarinnar samþykktur.

 

Varðandi skipulagshluta hennar er eftirfarandi bókun gerð:

 

Hreppsnefnd samþykkir breytingu á Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2005-2017 í landi Morastaða sem auglýst hefur verið samkvæmt 2. mgr. 21.gr. laga nr.73/1997.

Engar athugasemdir bárust á auglýsingartímanum

Breytingin felst í að svæði undir frístundabyggð í landi Morastaða er minnkað úr 24 ha í 6.7 ha. Breytingin felur jafnframt í sér að það svæði sem áður var skilgreint sem frístundasvæði verður landbúnaðarsvæði samtals 17.3 ha.

 

 

 

 

b)  Menningar-fræðslu-og félagsmálanefndar dags. 07.01.2008.

Afgreiðsla;Lögð fram og eftirfarandi samþykktir gerðar:

 

A)  Reglur um félagslega heimaþjónustu í Kjósarhreppi samþykktar

 

B)   Hreppsnefnd samþykkir að veita oddvita fullt umboð til kaupa á búseturétti í þjónustuíbúð hjá sjálfseignarstofnunni Eir í Mosfellsbæ. Umboðið nær jafnframt til undirbúningsgerðar nauðsynlegra samninga varðandi samstarf Kjósarhrepps og stofnunarinnar.

Jafnframt er oddvita veitt fullt umboð til undirbúnings til að tryggja aðkomu Kjósarhrepps að byggingu hjúkrunarheimilis að Hlaðhömrum.

 

 

 

 

 

 

 

6.  Staða innheimtu 2005,6 og 7 Listi dags. 10. janúar 2008.

 

Oddviti lagði fram yfirlit um stöðu innheimtu dags. 10. janúar 2008

 

 

7.  Þriggja ára fjárhagsáætlun sveitarsjóðs, fyrri umræða

 

Afgreiðsla: Vísað til síðari umræðu

 

 

8. Önnur mál.

 

a)      Málefni Fjölsmiðjunnar

Oddviti leggur til að  Kjósarhreppur taki þátt í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðisins til kaupa á húsnæði til handa Fjölsmiðjunni.

Afgreiðsla: Oddvita falið að ganga frá aðild Kjósarhrepps að málinu.

     

b)      Staðardagskrár fundargerðir frá 18.10.2007 og 01.11.2007 lagðar fram.

 

Fundi slitið kl.22.10

Fundarritari var Steinunn Hilmarsdóttir