Áfangasigur gegn uppdælingu í Hvalfirði
Iðnaðarráðuneytið hefur framlengt takmarkaða heimild Björgunar ehf. til hagnýtingar jarðefna á hafsbotni í Kollafirði , Hvalfirði og á Faxaflóa að undanskildum t.t. námusvæðum og þar á meðal utan við Hálsnes, Maríuhöfn og Eyri. Þá er fyrirtækinu óheimilt að stunda efnisnám nær landi en 500 m. frá stórstraumsfjöru, frá Kiðafelli og að Saltvík á Kjalarnesi.
Heimildin gildir til 1. mars 2009, en þó aldrei lengur en tveimur mánuðum eftir að fyrir liggur endanlegt álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum einstakra svæða, enda sé mat á umhverfisáhrifum framkvæmda hraðað svo sem kostur er.
Ráðuneytið fer þá leið, sem því er heimilt, að ákvarða að efnisnám úr hverri einstakri námu megi ekki fara yfir þau mörk sem sett eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum um matskyldu slíkra framkvæmda.
Ráðuneytið hefur haft samráð við fulltrúa Kjósarhrepp vegna útgáfu leyfisins og virt nokkuð af hans sjónarmiðum.