Þrír dagar í þorrablót
Alveg er það ljóst hvað menn eta á þorrablóti en það er súr matur og hanginn, reyktur og kæstur. Það er þó aðdáunarvert að til að enginn fari svangur af blóti, jafnvel ekki þeir sem andstyggð hafa á þorramat og telja hann úldinn og óætan, en í þá bera menn nú fram þorrapizzur, kannski með kjúklingaáleggi og hugsanlegu ofurlitlu súru rengi í kantinum, ýmsa pottrétti og jafnvel pasta. Allir þurfa að fara mettir frá borði. Enda veitir ekki af, einkum ekki ef menn teyga drúgt af pyttlum sínum og vasapelum því það er auðvitað orðið allt of dýrt að versla á barnum endalaust.
Þorrablót eru góður siður og skemmtilegur, þar borða menn fallega, hlýða á uppbyggileg skemmtiatriði og hefja upp rausn sína, hitta nýtt fólk og endurnýja gömul kynni. Nauðsynlegt er að hlúa að þessari gömlu góðu venju. Mætum því öll sem vettlingi geta valdið en panta á miðana á milli kl. 16 og 18 á morgun í síma 5667028