„Heldri“ Kjósverjar og hádegisverðarsúpa.
Heldri Kjósverjar áttu góða samverustund í Ásgarði í gær, 18. nóvember 2015, yfir hádegisverðarsúpu sem Kjósarhreppur hafði sérstaklega boðið til. Kjósverjum á eftirlaunaaldri hafði sérstaklega verið boðið til að njóta ánægjustundar og eiga spjall um lífið og tilveruna.
Nokkuð góð mæting var á samkunduna en þar mátti einnig sjá nokkrar boðflennur, m. a. meðlimi unghjónaklúbbs, aðila í stjórn ungmennafélags og formann Kvenfélags Kjósarhrepps sem tók myndina. Samkvæmt þjóðskrá 1. desember 2014 eru 25 Kjósverjar á eftirlaunaaldri með lögheimili í hreppnum.
Árni Svanur Daníelsson, settur sóknarprestur í Reynivallarprestakalli, kom og mælti góð orð.
Yfir hádegisverðarsúpunni, sem þótti með afbrigðum góð, var margt skrafað og gamlir tímar rifjaðir upp. Skráð voru niður öll númerin á mjólkurbrúsunum hér forðum og rætt var um söknuð yfir því að njóta ekki lengur gamla sveitasímans, sem var jú fréttaveita síns tíma. Rifjuð voru upp „símanúmer“ bæjanna. Hver hafði eina stutta og eina langa? og hver hafði tvær stuttar og eina langa? o.s.frv. Þeir Kjósverjar, aldnir sem ungir, sem muna „símanúmer“ bæjanna fyrir tilkomu sjálfvirka símans eru beðnir um að senda upplýsingar um númerin til Guðnýjar G. Ívarsdóttur í tölvupóstfangið gudny@kjos.is.
Þar sem gestir og boðflennur gerðu góðan róm að samverustundinni er vaknaður upp vilji til þess að gera viðburð sem þennan, hádegisverðasúpu fyrir heldri Kjósverja, reglulegan yfir vetrartímann