Breytt póstnúmer fyrir Kjós
Frá og með 1. desember verður póstnúmerið fyrir Kjós „276 Mosfellsbær“ Hreppsnefnd hefur um árabil barist fyrir að Kjósarhreppur fengi sjálfstætt póstnúmer. Aukinn þungi var settur á málið 2007 og lagðist embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á sveif með hreppsyfirvöldum sem hefur nú borið árangur. Ekki náðist í þessum áfanga að hengja Kjós aftan við númerið en þrýstingur er víða um land um að tengja nánari staðargreinir við póstáritun. Að sögn fulltrúa Póstsins næst það ekki að sinni.
Áritunin 270 Mosfellsbær fyrir Kjós hefur valdið ýmiskonar erfileikum. Samheiti er á bæjum innan þess póstnúmers, ferðamenn hafa ekki áttað sig á staðsetningu þjónustuaðila og hafa leitað að þeim í Mosfellsbæ. Þá hefur neyðarþjónusta verið ómarkviss af sömu ástæðu. Einhverjir neikvæðir þættir kunna að fylgja hinu nýja númeri s.s.heimkeyrsluþjónusta á vöru.
Íbúar eru hvattir til, þegar þeir gefa upp heimilisfang sitt, að segja alltaf Kjós á eftir bæjanafninu, þannig að heimilisfangið líti t.d. þannig út:
Ásgarði Kjós
276 Mosfellsbær