Fara í efni

Eitthundrað og fimmtíu ára afmæli Reynivallakirkju

Deila frétt:

Sr. Gunnar Kristjánsson sóknarprestur
Fjölmenni var á afmælishátíð Reynivallakirkju þegar 150 ár voru frá liðin frá byggingu hennar. Athöfnin hófst með hátíðarguðsþjónustu að Reynivöllum þar sem sóknarpresturinn hélt hátíðarræðu úr stól kirkjunnar, listafólk flutti tónlist, afkomendur sr. Kristjáns Bjarnasonar lásu ritningarorð að ógleymdum söng kirkjukórsins undir stjórn Páls Helgasonar.

Að aflokinni guðþjónustunni var haldið í Félagsgarð þar sem veitingar voru fram bornar í boði Kvenfélags Kjósarhrepps. Formaður sóknarnefndar, Guðbrandur Hannesson, bauð gesti velkomna og flutti ávarp. Þá talaði sóknarpresturinn til gesta og sr. Brynjólfur Gíslason fyrrum prestur í Stafholti sagði frá langafa sínum sem þjónaði Reynivallasókn þegar kirkjan var byggð.

Afkomendur sr. Kristjáns Bjarnasonar
Ásgeir Harðarson, sóknarnefndarformaður í Brautarholtssókn, flutti sókninni kveðju og færði henni nýja Biblíu innbundna í skinn. Ólafur M. Magnússon flutti árnaðaróskir og færði kirkjunni að gjöf, fyrir hönd foreldra sinna, Magnúsar Sæmundsonar og Guðrúnar Tómasdóttur, hátíðarhökul og stólu í minningu móður Magnúsar; Láru Magnúsdóttur í Eyjum II.

Frumsýnd var sögusýning um Reynivelli og kirkjuhald í sókninni sem gerður var góður rómur að.