Fjölmenni á Krásum í Kjósinni
Matarmenningarhátíðin Krásir í Kjósinni var haldin í fyrsta sinn á laugardag í Félagsgarði og þótti takast mjög vel. Hátíðin var sótt af um 100 manns og þar voru kynnt matvæli og hráefni frá alls 14 aðilum í Kjósinni sem meistarakokkarnir Ólöf Jakobsdóttir og Jakob H Magnússon matreiddu af einstöku listfengi. Halldór Pálmar Halldórsson og Óskar Sindri Gíslason líffræðingar stóðu fyrir
kynningu á grjótkrabba sem var jafnframt á matseðlinum. Dominique Plédel Jónsson kynnti lífræn vín og Slowfood, alþjóðleg samtök til verndar staðbundnum mat og matreiðsluvenjum. Veislustjóri var Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur sem rakti ættir sínar til fjögurra bæja í Kjós og sagði skemmtilegar sögur á milli ljúffengra rétta. Loks lék Ólöf Arnalds nokkur lög,
en hún hefur nýlokið upptökum á nýjum diski og fóru upptökurnar fram í Kjósinni. Kjósarstofa vill færa öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum til hátíðarinnar bestu þakkir fyrir samstarfið.