Frá Kjósarstofu
Íbúafundur vegna hátíðanna Kátt í Kjós og Krásir í Kjós miðvikudagskvöldið 23. maí kl. 20 í Ásgarði.
Kjósarstofa boðar íbúa og aðra áhugasama til skrafs og ráðagerða um hátíðirnar Kátt í Kjós (sem verður 21. júlí) og Krásir í Kjós (sem verður 29. september) til fundar í Ásgarði miðvikudagskvöldið 23. maí kl. 20. Hátíðin Kátt í Kjós verður með fjölbreyttu sniði og óskum við eftir bæði hugmyndum og þátttöku sem flestra. Krásir í Kjós verða með svipuðu sniði og í fyrra og óskum við eftir samráði við þá sem hyggjast rækta grænmeti, kryddjurtir og fleira sem nýst gæti á matseðilinn, jafnframt því sem okkur langar að tryggja okkur bæði kjöt og fisk úr Kjósinni. Allir eru velkomnir og boðið verður upp á kaffi og meðlæti á fundinum.
Fjöruferð laugardaginn 26. maí kl. 15
Í tilefni af vorkomunni hyggst Kjósarstofa í samstarfi við umhverfisnefnd efna til fjöruferðar laugardaginn 26. maí. Guðrún Hallgrímsdóttir matvælaverkfræðingur verður með leiðsögn um fjörunytjar og rifjar upp þýðingu þangs, fjörudýra og fjörugróðurs í fæðunni og Björn Hjaltason á Kiðafelli verður með leiðsögn um fugla. Hist verður við skógræktarsvæðið við Fossá kl. 15. Að lokinni fjöruferðinni verður boðið upp á kaffi og meðlæti í Ásgarðiog fagnað sumarafgreiðslutíma Kjósarstofu sem verður opin á laugardögum í júní og út ágúst kl. 14-18 auk þess sem opið verður á skrifstofutíma, kl. 10-16 á virkum dögum.