Frétt frá Adam
Starfsfólk á landsmótið o.fl.
Nú líður senn að landsmóti hestamanna í Reykjavík, en það verður haldið 25 júní til 1 júlí. Mikið starfslið þarf til svo mótið gangi vel fyrir sig, og nú er um að gera fyrir hestamenn að vinna saman. LH sendi öllum hestamannafélögum á SV-horninu erindi, þar sem er óskað er eftir starfsfólki á vaktir. Eftirfarandi er kafli úr erindinu:
„Við gerum ráð fyrir að vaktirnar verði jafn margar og í fyrra. Við munum senda ykkur auglýsingu með nánari útskýringum til dreifingar seinni part þessarar viku . Norðlensku hestamannafélögin stóðu sig sérstaklega vel á síðasta móti hvað mönnun þessara vakta varðar og því er pressan í ár á félögin á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni.
Eins og fyrr verða greiddar 1500kr per unna klukkustund og er það greitt til hestamannafélaganna í formi styrkjar. Landsmót leggur til og mælir með að öll upphæðin eða að lágmarki 1/3 hennar nýtist áfram í starfi hestamannafélaganna en renni ekki beint í vasa starfsmanna. Það má segja að ungmennafélagsandi sé aftur að aukast í okkar samfélagi, eins og sannaðist á síðasta móti, því ættu félagsmenn eftlaust að vilja taka þátt fjáröflun fyrir sitt félag.
Jafnframt viljum við, ótengt vöktunum sem voru ræddar hér að ofan, óska eftir aðstoð ykkar við að fá unglinga í félagsbúningum til þess að draga upp þjóðfána við setningarathöfn mótsins og jafnframt athuga með aðstoðarfólk í þjóðbúningum við verðlaunaafhendingar.“
Stjórn Adams hvetur þá félaga sem hafa tök á, að taka vaktir á landsmótinu og um leið efla okkar félag í Kjósinni. Þeir sem hafa áhuga á að vera með eru beðnir að senda póst á bjossi@icelandic-horses.is eða hafa samband í s. 8957745.
Þá viljum við minna á að Adam er á fésbókinni, en jafnframt sendir félagið út tilkynningar á kjos.is, hestafrettir.is og eidfaxa.is . Félagar geta líka sent tölvupóst á ofangreint netfang óski þeir eftir að fá tilkynningar sendar á netfang sitt.
Adamsfélagar; munið úrtökuna fyrir landsmótið 1-3 júní.
Stjórn Adams