Heimasíðunni hefur verið gerður starfsrammi
Á fundi hreppsnefndar sem haldinn var í dag, var tillaga að samþykkt og ritstjórnarstefnu fyrir heimasíðu hreppsins staðfest. Meðal þess sem fram kemur í samþykktinni er að síðan heyrir beint undir hreppsnefnd, sem ræður henni rit-og vefstjóra og mótar ritstjórnarstefnu fyrir hana, sem á að vera aðgengileg á forsíðu. Allir hreppsnefndarmenn fá aðgang að mið-forsíðu og geta sjálfir sett þar inn fréttir og tilkynningar. Þá er heimilt að úthluta einstaklingum hliðstæðan aðgang og er þar m.a. átt við forsvarsmenn félaga.
Í ritstjórnarstefnu kemur m.a. fram nokkur afmörkun á hvaða efni er á síðunni sem byggir að mestu leiti á því efni sem þegar er á síðunni en auk þess er áhugasömum gefinn kostur á að senda inn pistla og greinar á sérstakt vefsvæði. Slíkt efni þarf að senda í tölvupósti á ritstjóra á póstfangið kjos@kjos.is. Þá er lesendum heimilt að skrifa álit við fréttir en gerðar eru ákveðnar kröfur til slíkra innsetninga. Kröfurnar byggja á almennum reglum sem vefmiðlar almennt styðjast við.
Ritstjórnarstefnan er nú aðgengileg í heild sinni neðst á stikunni hér til vinstri.
SH