Fara í efni

Hestamannafélagið Adam - ný sjórn og nýjar nefndir

Deila frétt:

 

Aðalfundur hestamannafélagsins Adams  var haldinn þann 2. nóvember síðastliðinn og var fundurinn vel sóttur.   Á aðalfundinum voru margir nýjir félagsmenn samþykktir inní félagið og kosið var um nýjan formann til tveggja ára og aðra stjórnarmeðlimi og skoðunarmenn til eins árs.

 

Óðinn Elísson, Hlíðarási, var einróma kosinn formaður hestamannafélagsins til næstu tveggja ára en aðrir aðalmenn í stjórn voru kjörnir Sigurður Ólafsson, Blönduholti, Hugrún Þorgeirsdóttir, Blönduholti, Svanborg Anna Magnúsdóttir, Miðdal, og Sigurður Guðmundsson, Flekkudal.   Varamaður í stjórn var kosinn Björn Ólafsson, Þúfu, en Björn gaf ekki kost á sér í aðalstjórn vegna anna.  Skoðunarmenn voru kjörin Hlíf Sturludóttir, Kiðafelli og Eilífsdal, og Sigurþór Gíslason, Meðalfelli.

 

Líflegar umræður voru á fundinum um framtíðaráform félagsins en vilji kom fram á fundinum að efla starfið og gera það enn skemmtilegra.   Á aðalfundinum var í fyrsta sinn veittur ræktunarbikar félagsins til þess eða til þeirra aðila, félagsmanna, sem ræktuðu hæst dæmda hrossið á árinu 2015.   Áður hefur birst frétt þess efnis í helstu fjölmiðlum að handhafar bikarsins eru nú Sigurbjörg Ólafsdóttir og Sigurþór Gíslason, bændur á Meðalfelli, vegna ræktunar þeirra á hryssunni Nípu frá Meðalfelli.

 

Nýkjörin stjórn hestamannafélagsins kom saman til fundar 25. nóvember síðastliðinn og skipti stjórnin með sér verkum og skipaði í nefndir.  

 

Svanborg Anna Magnúsdóttir er nú gjaldkeri félagsins, Sigurður Guðmundsson, ritari, og Hugrún Þorgeirsdóttir og Sigurður Ólafsson, meðstjórnendur.  Formaður félagsins, Óðinn Elísson, Hlíðarási,  var kosinn formannskosningu á aðalfundi.   

 

Á fyrsta stjórnarfundi var skipuð var fánanefnd ,sem hefur það hlutverk að endurskoða merki félagsins, fána þess o.fl.  Í fánanefnd voru skipuð Hlíf Sturludóttir, Sigurbjörn Magnússon, Sigurbjörg Ólafsdóttir, Sigurþór Gíslason og Hugrún Þorgeirsdóttir.   Reiðveganefnd skipa sömu aðilar og áður, Óðinn Elísson, Sigurður Ásgeirsson og Sigurður Guðmundsson og ferðanefnd Sigurður Ólafsson, Svanborg Anna Magnúsdóttir og Óðinn Elísson. 

 

Fyrsti viðburður á vegum félagsins eftir fysta stjórnarfund nýrrar stjórnar er folaldasýning þann 5. desember næstkomandi og er folaldasýningin auglýst sérstaklega.

Stjórnin