Hreppsnefnd lýsir yfir þungum áhyggjum
Á fundi hreppsnefndar Kjósarhrepps þann 21. ágúst voru málefni stóriðjunnar á Grundartanga til umfjöllunar.
Í fundargerð fundarins kemur fram að oddviti greindi frá fundi sem forsvarsmenn álversins á Grundartanga óskuðu eftir í kjölfarið að á kjos.is birtust fréttir, sem þeir voru ósáttir við, af auknum styrk flúors í beinum grasbíta í Hvalfirði eftir að álverið tók til starfa. Oddviti og varaoddviti sátu fundinn ásamt Ragnari Guðmundssyni forstjóra og Ágústi Hafberg frá Norðuráli. Skýrðu Norðurálsmenn sín sjónarmið, óskuðu eftir samstarfi og buðu hreppsnefnd Kjósarhrepps í heimsókn á Grundartanga.
Af þessu tilefni lýsir hreppsnefnd Kjósarhrepps yfir þungum áhyggjum vegna losunar flúors og annarra mengandi efna út í andrúmsloftið frá stóriðjusvæðinu á Grundartanga og felur oddvita að senda umhverfisráðherra erindi þar sem þess verði óskað að hann fari yfir hvort starfsleyfi fyrirtækjanna séu virt, ekki síst í ljósi þess að magn losaðs flúors hefur verið yfir viðmiðunarmörkum að meðaltali samfleytt í tvö ár og hvort á því séu eðlilegar og réttmætar skýringar sem rúmast innan starfleyfi Norðuráls.
Jafnframt verði þess óskað að umhverfisráðherra beiti sér fyrir að samkomulag frá 1997, undirritað af þáverandi umhverfisráðherra, um ráðgjafanefnd um umhverfisrannsóknir og vöktun umhverfis vegna stóriðju í Hvalfirði verði endurvakið.