Fara í efni

Hugleiðing til dýraeigenda í Kjósarhreppi um áramót

Deila frétt:

Smá hugleiðing til dýraeigenda um áramót og fram yfir þrettándann. Á það sérstaklega við um þá eiga hunda, ketti og hesta og kannast vel við þann óróa og angist sem dýr þeirra ganga í gegnum á þessum tíma vegna látanna sem fylgir þessum flugeldaskotum. Dæmi eru um að hundar sleppi og hlaupi fyrir bíla eða á fjöll. Hestar úti í haga eru sérlega í hættu. Mörg dæmi eru um að hestar hafi fælst við flugelda, brotist út úr girðingum og hlaupið til fjalla eða í veg fyrir bílaumferð, og valdið slysum á sjálfum sér og öðrum. Hestar eru mikil hópdýr svo ef einn hleypur af stað fylgir gjarna allur hópurinn.

Gott er að gefa hestum vel sem eru á útigangi og halda þeim á kunnuglegum slóðum, þar sem þeir fara sér síður að voða ef hræðsla grípur þá. Ef hægt er að setja hesta inn er það öruggast.

Eigendur ættu helst að fylgjast með hestunum ef því er komið við, eða alla vega vitja þeirra sem fyrst eftir lætin.