Fara í efni

Kona slasast á Meðalfellsvatni

Deila frétt:

Kona slasaðist sl. laugardag þegar hún féll af uppblásinni slöngu sem dregin var af snjóketti á Meðalfellsvatni í Kjós. Sjúkrabíll var sendur á staðinn en ákveðið var síðan að kalla eftir aðstoð björgunarþyrlu Landhelgisgæslunnar TF LÍF sem stödd var á æfingaflugi í nágrenninu. Lenti hún á túninu neðan við Grjóteyri og var tilkomumikil sjón að sjá svona glæsilegt ferlíki þarna á túninu.

Konan hlaut beinbrot á læri við fallið en ekki var talið að hún væri alvarlega slösuð. Hún var síðan flutt til aðhlynningar á Landspítalann í Fossvogi og þar gert að meiðslum hennar. Henni er óskað góðs bata og aldrei er sú vísa of oft kveðin, sú að fara varlega.