Kvenfélagskonur í Kjós gáfu 500 þúsund í aðgerðarþjarka
Kvenfélag Kjósarhrepps hefur lagt hálfa milljón króna í söfnun vegna fyrirhugaðra kaupa á aðgerðarþjarka til skurðlækninga á Landspítala. „Við fréttum af þessari söfnun og eftir að hafa fræðst aðeins um þetta tæki og lesið okkur til um hvernig aðgerðir verða mun inngripsminni en núverandi aðgerðir og bataferlið mun hraðara, vorum við sammála um að þetta væri verkefni sem við vildum taka þátt í,“ segir Jóhanna Hreinsdóttir, formaður félagsins.
Í kvenfélaginu eru aðeins 13 konur og helstu fjáröflunarleiðir þeirra eru þorrablót sem er alltaf haldið fyrsta laugardag í þorra, kaffisala á sveitahátíðinni „ Kátt í Kjós“ í júlí ár hvert og aðventumarkaður í desember. Kvenfélagskonurnar taka líka að sér að sjá um kaffiveitingar við ýmis tækifæri og eftir atvikum annað sem til fellur.