Mennta-og menningarsjóður Guðna Guðnasonar frá Eyjum I í Kjós
Árið 2012 stofnaði Guðni Guðnason Mennta- og menningarsjóð fyrir Kjósverja og því munu þær áherslur sem hann hafði á samhjálp í lifanda lífi, lifa áfram í verki fyrir tilstilli sjóðsins. Í tilefni af því að á þessu ári hefði Guðni Guðnason orðið 100 ára gamall hefði honum orðið lengra lífs auðið, þá verður úthlutað úr sjóðnum í fyrsta sinn fyrir árslok. Í meðfylgjandi auglýsingu má sjá upplýsingar sem varða styrkinn.
Markmið sjóðsins er að efla menntun og menningu í Kjósarhreppi með styrkjum úr sjóðnum. Sjóðinn stofnaði Guðni til minningar um Orm Vigfússon (1576-1675) sem var sýslumaður í Eyjum í Kjós og hans konu Guðríði Þórðardóttur. Það að koma sjóðnum á laggirnar var gjöf Guðna til sveitarinnar sem hann unni svo mjög.
Stjórn sjóðsins hvetur íbúa Kjósarhrepps til að sækja um styrk úr sjóðnum í samræmi við neðangreinda auglýsingu. Styrkfjárhæðin nemur kr. 100.000,- og rennur til eins umsækjanda.
Auglýsing um styrk úr Mennta- og menningarsjóði Guðna Guðnasonar frá Eyjum I í Kjós
Markmið sjóðsins er að efla menntun og menningu í Kjósarhreppi með styrkjum úr sjóðnum.
Stjórn sjóðsins auglýsir hér með eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum og skulu skriflegar umsóknir berast Guðbrandi Jóhannessyni hdl., Sundagörðum 2, 104 Reykjavík eigi síðar en 15 október. 2015
Í umsókninni sem að hámarki má vera 3 blaðsíður, skal rökstyðja af hverju sótt er um styrkinn m.t.t. markmiðs sjóðsins. Umsækjendur mega hvort heldur vera einstaklingur/-ar eða félög. Fyrir árslok 2015 mun ákvörðun stjórnar sjóðsins liggja fyrir. Úthlutaður styrkur skal nýttur innan árs frá úthlutun. Stjórnin áskilur sér rétt til að hafna umsóknum ef þær uppfylla ekki þær kröfur sem hún gerir.