Ný stjórn hjá Adam – folaldasýning.
Aðalfundur Adams var haldinn í gærkvöldi, og var hann nokkuð vel sóttur. Alls gengu í félagið 7 nýir félagar og eru félagsmenn nú rúmlega 50 talsins. Á fundinum var kosin ný stjórn og er hún þannig skipuð:
Formaður: Björn Ólafsson, Þúfu.
Meðstjórnendur: Sigurður Guðmundsson, Flekkudal og Óðinn Elísson, Hlíðarási.
Varamenn: Ólöf Ósk Guðmundsdóttir, Miðdal og Orri Snorrason, Morastöðum.
Gert er ráð fyrir að varamenn taki fullan þátt í störfum stjórnar.
Ný stjórn vill þakka fráfarandi formanni Pétri Blöndal og fyrri stjórnarmönnum fyrir vel unnin störf.
Síðasti vetur var félagsstarfi hestamanna erfiður sökum hestapestar sem gekk yfir. Nú er bjartara yfir og stefnir Adam í að standa fyrir líflegu félagsstarfi í vetur.
Fyrsta uppákoma vetrarins verður sunnudaginn 4. desember, þegar haldin verður folaldasýning í Boganum á Þúfu. Sýningin verður auglýst nánar síðar.
Hestamenn í Kjós; höfum gaman , saman.
Stjórn Adams.