Opinn dagur að Neðra Hálsi á "Kátt í Kjós"*
Á laugardaginn næstkomandi verður opinn dagur á Neðra Hálsi þar sem gestum verður boðið upp á fræðslu um lífrænan landbúnað ásamt smakki á lífrænum mjólkurafurðum.
Á Neðra Hálsi hefur verið stunduð lífræn mjólkurframleiðsla undanfarna tvo áratugi en ábúendur eru Kristján Oddsson og Dóra Ruf. Þau reka einnig fyrirtækið Biobú ehf. sem sér um fullvinnslu á lífrænum mjólkurafurðum. Mjólkin sem notuð er í þá framleiðsluna hefur að jafnaði
komið frá Neðra Hálsi, en þeim hjónum hefur bæst liðsauki frá Búlandi
í Landeyjum og Finnastöðum í Eyjafjarðarsveit Hægt er að heimsækja Neðri Háls frá kl. 13-17.
Neðri Háls hefur alltaf tekið þátt í Kátt í Kjós og nú eins og í hin fyrri skipti, verður líkt eftir kröftum náttúrunnar sem að ótrufluðu liðast enn áfram í eilífri hringrás víðast hvar. Það verður þannig eins með gestina á opnum degi. Þeim verður boðið upp á hringferð, ekki eilífa að vísu, um býlið, þar sem hægt verður að skoða húsakost og vélbúnað, drekka í sig þekkingu um lífræna ræktun, kíka á og klappa lífrænum kálfum, þefa af lífrænu smáraheyi, sjá með eigin augum lífrænar mjólkukýr, sem eingöngu eru fóðraðar á grasi. Þá má líta rúllustæður eftir fyrsta slátt sumarsins, sem byrjaði 5 júní og lauk þ. 28 júní.
Minnt skal á hér að í lífrænni ræktun er engin tilbúinn áburður notaður.
Þá má minna á að á Neðra Hálsi verður hægt að rifja upp ýmis sjónarhorn úr hinni frægu Dalalífsmynd þar sem leikmynd og leikmunir eru enn til staðar.
Í lokin á hringferðinni fá gestir tækifæri til að smakka á afurðum Biobús, og einnig verður tækifæri til þess að létta á klinkinu og kaupa sér lífrænan ís í blíðunni og jafnvel fleira ef guð lofar. Þá verður boðið upp á ókeypis lífrænt kaffi og heimabakaða skúffuköku undir hressandi harmonikku og trompetleik.
Öruggt má telja að okkar lífrænu kýr sem ekki verða langt undan munu einnig sína sig á svæðinu og munu þær ekki láta þennan viðburð fram hjá sér fara.