Ræktunarbikar Adams á Meðalfell í Kjós
Rætkunarbikar Hestamannafélagsins Adams í Kjós var veittur í fyrsta sinn á aðalfundi
félagsins nú í vikunni. Ræktunarbikarinn er veittur þeim hrossaræktanda og félagsmanni í Adam sem ræktað hefur hæst dæmda kynbótahrossið á yfirstandandi ári. Það voru hjónin og bændurnir Sigurbjörg Ólafsdóttir og Sigurþór Gíslason á Meðafelli Kjós sem hlutu bikarinn fyrir ræktun sína á stólpahryssunni Nípu frá Meðalfelli. Nípa, IS-2009225086,hlaut á árinu 8,59 í aðaleinkunn á miðsumarssýningu á Gaddstaðaflötum, þar af 8,13 fyrir byggingu og 8,90 fyrir hæfileika. Nípa fékk m. a. 9 fyrir tölt, 9 fyrir stökk, 9,5 fyrir vilja og geðslag og 9 fyrir fegurð í reið. Þá hlaut hún einnig 9 fyrir hægt tölt og 9 fyrir hægt stökk.
Það má með sanni segja að ræktunarbikarinn hafi ratað í réttar hendur þegar hann var veittur í fyrsta sinn. Hestamannafélagið Adam er kennt við hinn nafntogaða kynbótahest Adam frá Meðalfelli. Nípa er skyldleikaræktuð út af Adami en móðir Nípu er Esja frá Meðalfelli, sem var dóttir Adams, og faðir Nípu er Orri frá Þúfu í Landeyjum, sem var dóttursonur Adams.