Reiðvegir malaðir.
Um síðustu helgi var á ferðinni ofurdráttarvél hér í Kjós og malaði reiðvegi sem lagðir hafa verið um okkar fallegu sveit s.l. ár. Hér er á ferðinni snilldar apparat sem hreinlega mylur allt sem á vegi þess verður í salla fína möl, þannig að grýttir vegir breytast í algjör teppi. Nú er búið að mala þá reiðvegi sem lagðir hafa verið frá Laxárbrú að Eyri, og svo þann spotta sem búið er að leggja frá Felli upp fyrir hæðina sunnan við Þúfu. Nú í vikunni er von á að haldið verði áfram að mala og á þá að fara yfir reiðveginn inn í Miðdal og leiðina sem liggur frá Flekkudal í átt að Miðdalsvegi. Þannig verða þessir reiðvegir væntanlega orðnir eins og reiðvegir gerast bestir. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikil lyftistöng þessi framkvæmd getur verið fyrir alla hestamennsku í sveitinni, bæði fyrir leikmenn og þá sem hafa atvinnu af.
Fyrir þá sem eru haldnir tækjadellu má nefna að dráttarvélin sem notuð er til að drífa mulningsapparatið er ein 470 hestöfl og vegur samtals 21 tonn.