Síðbúinn árangur hrossaræktar á Valdastöðum
24.09.2008
Deila frétt:
Hryssan Sunna á Valdastöðum, sem fengin var í hrossakaupum fyrir margt löngu, tók uppá því, öllum að óvörum að kasta af sé afkvæmi nú á haustnóttum. Kapalinn varð á vegi ljósmyndara sem stóðst ekki mátið og festi hann á filmu. Að sögn Önnu Bjargar húsfreyju á Valdastöðum II er hryssan, sem farin er að grána, trúlega orðin tuttugu vetra og öngvar ráðstafanir hafi verið gerðar að fyl gæti verið í kviði.
Nokkuð hefur verið um að folöld hafi fæðst á þessum slóðum og sætir það nokkurri furðu, þar sem stóðhestahald er þar ekkert. Grunur leikur á að sú gamla hafi náð sambandi við ungfola úr nágrenninu sem leitt hafi til þessa óboðna ellismells.