Til framkvæmdaaðila, sveitarfélaga, veiðifélaga og landeiganda við ár og vötn
Bréf frá Fiskistofu, sent Kjósarhrepp
Nú í sumar hafa eftirlitsmenn Fiskistofu víða orðið varir við ýmis konar framkvæmdir í og við veiðivötn, svo sem malartekju, umbætur á veiðistöðum og veiðivegum o.s.frv. Í mörgum tilfellum hefur framkvæmdin verið án lögboðinna leyfa frá Fiskistofu og þar hafa átt hlut að máli bæði utanaðkomandi verktakar og landeigendur en einnig sveitarfélög og veiðifélög, sem þó bera ákveðna stjórnsýslulega ábyrgð í þessum málum samkvæmt lögum.
Af þessu tilefni vill Fiskistofa benda á að samkvæmt 33. grein laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði með síðari breytingum þarf að leita eftir heimild Fiskistofu vegna allra framkvæmda við ár og vötn, hvort sem um er að ræða malartekju, bakkavarnir, veiðistaðargerð, sleppitjarnir fisk o.s.frv. Ef um smávægilegar framkvæmdir er að ræða, sem líklegt er að vera þurfi árvissar og sem ekki valda teljandi skaða á lífríki ánna, er mögulegt að veita slíkar heimildir fyrir lengra tímabil, t.d. 5 ár. Samkvæmt ofan nefndri lagagrein þurfa framkvæmdaaðilar og/eða landeigendur að útvega umsögn veiðifélagsins á svæðinu og sérfræðings í vatnalíffræði og búsvæðum laxfiska, sem metur áhrif framkvæmdanna á lífríki ánna. Umsókn ásamt tilheyrandi umsögnum er síðan send til Fiskistofu á sérstöku eyðublaði vegna framkvæmda við ár og vötn, sem finna má á vefsíðunni www.fiskistofa.is
Sérstaklega skal vakin athygli á því að með lögum nr. 119/2009 um breytingu á lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði voru heimiluð viðurlög vegna brota, sem tengjast ólöglegum framkvæmdum við ár og vötn. Árið 2010 hefur verið nýtt til að upplýsa hagsmuna- og framkvæmdaaðila og aðlaga að nýjum lögum. Frá og með næstu áramótum munu lagabrot hinsvega kalla á kærur og viðeigandi viðurlög, ef um alvarleg brot er að ræða. Sérstaklega vill Fiskistofa benda á að heimild Fiskistofu þarf að liggja fyrir áður en sveitarstjórnir veita frakkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við ár og vötn og það er í raun á ábyrgð sveitarstjórna að sá háttur sé hafður á enda er malarþörf sveitarfélaga vegna ýmis konar framkvæmda mjög mikil.
Megintilgangur þessa bréfs er að upplýsa aðila um réttindi þeirra og skyldur og hvetja þá til að kynna sér þau lög sem um málið fjalla. Ítarlegri upplýsingar má finna á www.fiskistofa.is