Ungfolasýning Adams
Jæja, þá er að koma að því. Já, nú er það alvöru folasýning, sýning sem merarþjóðin hefur beðið eftir. Ungfolasýning þar sem eistu og öflug lend eru það sem skiptir máli. Laugardaginn 1 mars, kl. 14, fer fram ungfolasýning Adams í Boganum að Þúfu í Kjós. Allir folar eldri en veturgamlir velkomnir. Þeir sem hafa hug á að koma með þátttakendur, þurfa að senda inn skráningu á netfangið: bjossi@icelandic-horses.is í síðasta lagi 28 febrúar. Nafn, uppruni og aldur fola eða IS-númer þarf að koma fram, ásamt nafni ræktanda og eiganda. Þátttökugjald er kr. 2500 fyrir hvern fola.
Efstu folar verðlaunaðir.
Dómari/umsagnaraðili verður enginn annar en hæsti kynbótadómari landsins; Þorvaldur Kristjánsson. Hver foli verður metinn út frá byggingu og hreyfingum. Þetta er tilvalið tækifæri til að horfast í augu við raunveruleikan; er folinn virkilega einhver „graðfoli“ ? eða er gelding málið???
Kaffi á könnunni og kaldur í kælinum.
Allir velkomnir.
Stjórn Adams