Viðgerð á girðingum meðfram Hvalfjarðarvegi
Í fjárhagsáætlun Kjósarhrepps fyrir árið 2014 var gert ráð fyrir að leggja fjármuni í lagfæringu á girðingum meðfram Hvalfjarðarvegi inn í Brynjudal til að koma í veg fyrir að sauðfé og annar búpeningur sé að flækjast á veginum og skapi þannig hættu fyrir sjálft sig og aðra vegfarendur.
Undanfarin ár hefur hreppsnefnd reynt að ýta við Vegagerðinni að laga girðinguna því í raun er það hennar hlutverk að sjá um að girðingin haldi svo að sauðfé sé ekki að þvælast um á umferðarmiklum þjóðvegum landsins. Lítið hefur áunnist og svarið er fjárskortur.
Gísli Örn á Hálsi og Davíð Örn á Þrándarstöðum tóku að sér að gera við girðinguna núna í júlí og síðan var öllu fé smalað austur fyrir. Er það von Kjósarhrepps að þessi viðgerð haldi og komi í veg fyrir að búfé sé á Hvalfjarðarvegi og skapi þannig hættu og/eða hugsanlegt fjárhagslegt tjón.