Aðalfundur Adams
Aðalfundur hestamannafélagsins Adams var haldinn fimmtudaginn 17. október síðastliðinn. Fundarsókn var dágóð en eitthvað dró það úr fundarsókninni að kúabændur í Kjós funduðu á sama tíma í Kaffi Kjós. Málefnalegar umræður fóru fram á fundinum um reiðvegamál, æskulýðsmál, keppnismál o.fl. Það var mál manna að hestamannafélagið hafi staðið vel að reiðvegamálum í Kjósarhreppi á undanförnum misserum en ekki hafi mikið borið á öðrum félagsstörfum á síðastliðnu ári.
Björn Ólafsson, hrossabóndi á Þúfu (ekki sauðfjárbóndi) , var endurkjörinn formaður félagsins og meðstjórnendur voru kjörnir áfram Óðinn Elísson, (refaskytta?), Klörustöðum, og Sigurður Guðmundsson, bóndi í Flekkudal (aðfluttur andskoti). Varamenn í stjórn voru kjörnir Orri Snorrason, hrossabóndi og sauðfjárbóndi á Morastöðum og Elís Guðmundsson, hestamaður frá Hlíðarási. Skoðunarmenn félagsins voru kjörin þau María Dóra Þórarinsdóttir, bóndi og kappreiðaknapi frá Morastöðum og Sigurbjörn Magnússon, hestamaður sem er nátengdur Kiðafelli og Kjósinni.
Björn Ólafsson, formaður, lýsti því yfir að nú verði blásið í herlúðra og að félagsstarfsemi í Adam verði færð í það horf að eftir verður tekið. Framundan er landsmótsár 2014. Efla skal félagsandann og fjölga skal þeim atburðum á vegum félagsins þar sem félgsmenn njóta samvista við hestinn í keppni , samreið og leik. Á komandi misserum skal uppfræða félagsmenn um ýmis atriði er tengjast íslenska hestinum og ungir sem aldnir verða hvattir til dáða í hestamennskunni.
Fyrsti viðburður hestamannafélagsins á komandi starfsári er árleg folaldasýning sem ákveðið hefur verið að halda í „Boganum“ á Þúfu í Kjós þann 16. nóvember næstkomandi. Folaldasýningar félagsins hafa þótt takast vel og hefur þátttaka almennt verið mjög góð. Þorvaldur Kristjánsson, kynbótadómari, hefur samþykkt að dæma á folaldasýningunni sem auglýst verður innan tíðar. Stjórn félagsins mun setja saman frekari dagsskrá fyrir viðburði á komandi starfsári sem kynnt verður nánar fyrir félagsmönnum og öðrum á vefmiðlum.
Stjórn hestamannafélagsins Adams.