Aðventumarkaðurinn á laugardaginn
Laugardaginn 4. desember verður hinn árlegi aðfangamarkaður jóla í Félagsgarði og er opinn frá kl 13-17. Á boðstólum verða ýmiskonar handverk og matvæli, beint frá býli og að venju er góð þáttaka á markaðnum.
Hægt er að byrja daginn snemma á því að ná sér í jólatré á skógræktarsvæðinu við Fossá og fá sér svo kakó og heimabakað meðlæti hjá Kvenfélagi Kjósarhrepps í Félagsgarði auk þess að skoða þær vörur sem þar eru á boðstólum.
Þórarinn og Lísa á Hálsi sem verða með framleiðsluvörur Matarbúrsins á Hálsi.
Snorri og Sveina í Sogni verða með nautakjöt, kæfu og annað, unnið úr lamba-og nautakjöti.
Sigurlína frá Flekkudal verður með tvíreykt, norðlenskt hangikjöt af veturgömlu og eldra.
Sigurbjörn á Kiðafelli verður með þurrsaltað tvíreykt hangikjöt og tölur úr horni og beini. Svenni og Hoffa verða með harðfisk og hákarl.
Bangsi á Heiðabæ kemur með silung úr Þingvallavatni, rófur og kartöflur. Ásta á Grímstöðum og Tina í Brekkukoti verða með prjónavörur. Óli og Gyða á Borgarhóli sem reka Sögumiðlun verða með framleiðsluvörur sínar s.s.bækur og fleira. Bjössi og Bíbí á Þúfu kynna öryggis- og vöktunarbúnað vegna eldvarna. Sigga á Bakka verður með vefnaðarvörur, Guðbjörg Jóna (NaNa) með vörur úr skinni, Guðný Gunnars með leirmuni, Sissa frá Sandi með prjónavörur, Kata á Kiðafelli með sultur og Anna Margrét á Stekkjarhóli með heimagert skart.
Rúnart, Steinunn og Ásgeir úr Mosfellsdalnum verða með skart, Ágústa J. og Ágústa Fr. með sínar margbreytilegu vörur, Dalsgarður verður með blóm og Kristjana Alberts og fleiri með prjónavörur.