Ágætu sveitungar
Bókasafnið verður opið á miðvikudagskvöldið 11. maí, frá kl 20.00-22.00. Þeir sem eru með bækur og eru búnir að lesa eru vinsamlegast beðnir um að skila þeim, safnið verður síðan lokað fram á haust.
Stefnt er að unglingavinna verði í sumar og byrji 14. júní, í um 5 vikur, frá mánudegi til fimmtudags og unnið frá kl 10-16. Áhugasamir sendi inn einfalda umsókn á oddviti@kjos.isog geti um nafn og aldur. Frekari upplýsingar veitir Guðný í s:5667100
Kjósarheppur hefur fengið úthlutað 5 störfum frá Vinnumálastofnun fyrir námsmenn án bótaréttar, 18 ára og eldri. Einu skilyrðin eru að þeir þurfa að hafa verið í námi á líðandi vetri og hafa verið skráðir í nám í viðurkenndri menntastofnun, innlendri eða erlendri, á hausti komanda. Ráðningatími eru 2 mánuðir, júní og júlí. Aðeins er um 5 störf að ræða. Vert er að geta þess að vinnan getur orðið býsna fjölbreytt, úti og inni. Frekari upplýsingar um málið veitir Guðný í s. 5667100.
Ef íbúar sveitarfélagsins hafa áhuga á að fá duglega krakka heim til sín í einhver sérstök verkefni, fyrir sanngjarnt verð, vinsamlegast hafið samband við skrifstofu hreppsins.
Er áhugifyrir því að íþróttaæfingar verði fyrir börn og unglinga í sumar ef þjálfari fæst? Sendið endilega póst á oddviti@kjos.iseða hafið samband við skrifstofu hreppsins.
Enn eru nokkrir aðilar sem skulda fasteignagjöld til Kjósarhrepps fyrir árin 2008, 2009 og 2010. Send var út áminning um ógreidd gjöld fyrr í vetur og gjaldendur minntir á að greiða þyrfti eða semja um þessi gjöld innan 20 daga. Margir brugðust fljótt við og gerðu upp en ekki allir, því miður. Fljótlega verður send út lokaviðvörun vegna vanskila á fasteignagjöldum vegna þessara álagningarára. Ef ekki verður brugðist við þeirri tilkynningu af hálfu gjaldenda með greiðslu eða greiðslusamkomlagi er Kjósarhreppur knúinn til þess að fara með málin í frekari og kostnaðarsamari innheimtuaðgerðir.