Ásgarður hefur tekið á sig upprunalega mynd
Endurbótum er nú lokið á Ásgarði. Skipt hefur verið um alla glugga í húsinu. Þeir sem eldri eru ættu að kannast vel við húsið eftir endurbætur. Gluggarnir voru smíðaðir eftir upprunalegri teikningu og voru með núverandi sniði framan af. Mörgum sem ekki hafa vanist þessu útliti þykja gluggarnir full fangelsislegir. Öll neðri hæð hússins hefur verið tekin í gegn frá grunni og bíður þess nú að öll regluleg starfssemi hreppsins færist á hana. Verið er að undirbúa að fá innréttingar á hæðina og er gert ráð fyrir að flutningur fari fram á haustmánuðum. Eldhús hefur jafnframt verið endurbætt og nýtist nú fyrir þá starfsemi sem er í húsinu og því funda-félagsstarfi sem þar verður. Gera menn sér vonir um að húsið verði að nýju kjölfestan í hreppnum, líkt og var þegar skólinn var þar starfandi.