Fara í efni

Áskorun til þingmanna Suðvesturskjördæmis

Deila frétt:

Á fundi sveitarstjórnar þann 9. mars sl. var samþykkt að senda eftirfarandi áskorun til þingmanna Suðvesturskjördæmis. 

Ágæti þingmaður Suðvesturkjördæmis

Í framhaldi af nýliðinni kjördæmaviku alþingis, þar sem hlé var gert á þingfundum, sem þingmönnum er ætlað að nýta til að fara í kjördæmi sín og hitta þar sveitarstjórnir, fulltrúa fyrirtækja og kjósendur, þykir sveitarfélaginu Kjós rétt að vekja sérstaka athygli á Kjósarhreppi, sem er hluti af höfuðborgarsvæðinu og aðili að Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. (SSH).

Að mati margra kjósenda í sveitarfélaginu, fulltrúa fyrirtækja, og sumarhúsaeigenda skortir á að hagsmunir Kjósarhrepps séu hafðir að leiðarljósi af þingmönnum Suðvesturkjördæmis. Í annars ágætu samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa fulltrúar Kjósarhrepps einnig upplifað þá tilfinningu að hagsmunir okkar “litla samfélags” eigi ekki samleið með stóru sveitarfélögunum og séu því látnir sitja á hakanum.

Kjósendum í Kjósarhreppi hefur fjölgað á undanförnum misserum og vegna aukinnar eftirspurnar fólks sem óskar búsetu í sveitarfélaginu, má búast við töluverðri fólksfjölgun á komandi árum. Mikil uppbygging á sér stað af hálfu sveitarfélagsins, fyrirtækja og landeigenda, með skipulagi um fjölgun íbúðarhúsalóða, frístundalóða og atvinnuuppbyggingu.

Kjósarhreppur, vegna kjósenda og fyrirtækja í sveitarfélaginu og þeirra sem dvelja þar í frístundum, óskar þess að þingmenn kjördæmisins leggi áherslu á það í störfum sínum að bæta úr ýmsum málefnum í sveitarfélaginu, sem eru á ábyrgð alþingis og stjórnvalda og gæti þess að Kjósarhreppur njóti jafnræðis við önnur sveitarfélög hjá opinberum þjónustustofnunum.

Vakin er athygli á því að þó að íbúar sveitarfélagsins séu ekki nema 280 þá eru í sveitarfélaginu um 500 sumarhús, þar á mikill fjöldi fólks afdrep og sækir Kjósarhrepp heim allt árið um kring. Allur þessi hópur þarf á almennilegum innviðum að halda.

Fjarskipti

Farsímasamband er víða mjög lélegt í Kjósarhreppi og dæmi er um íbúðarhús í sveitarfélaginu, þar sem ekkert samband næst. Það er alvarlegt að víða á vegum í Kjósarhreppi, t. d. á Kjósarskarðsvegi, næst ekki farsímasamband eða það dettur út með reglulegu millibili. Það er brýnt öryggismál að eðlilegt farsímasamband sé fyrir hendi í sveitarfélaginu og að hægt sé að treysta á það. Það eru einnig sjálfsögð mannréttindi fyrir íbúa og gesti í Kjósarhreppi að jafnræðis sé gætt milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í fjarskiptamálum.

Samgöngumál

Brúin yfir Laxá – Brúin yfir Laxá er einbreið brú sem komin er til ára sinna. Í vor kom í ljós að brúin var mjög illa farin og nauðsynlegt var að grípa til bráðaaðgerða strax af hálfu Vegagerðarinnar, með því að skiptaum burðarbita undir brúnni. Brúin var lokuð um tíma á meðan bráðabirgðaviðgerð fór fram og lækkaður var hámarkshraði og þungatakmarkanir voru settar. Mikil aukning hefur orðið á umferð um brúna á síðustu árum m.a. vegna fjölgunar ferðamanna og sumahúsaeigenda en Kjósin er að verða vinsæll áningarstaður ferðamanna í auknum mæli. Lokist Hvalfjarðargöng þá er eina tenging Norður- og Vesturlands í gegnum Kjósina, yfir brúna við Laxá eða um Kjósarskarðsveg. Það er aðkallandi öryggismál að byggð verði ný tvöföld brú yfir Laxá í Kjós og að gætt sé að nauðsynlegu viðhaldi og endurbótum á þessar nauðsynlegu þjóðleið.

Eyrarfjallsvegur nr. 460 ( Af Hvalfjarðarvegi hjá Kiðafelli, sunnan Eyrarfjalls, á Hvalfjarðarveg hjá Felli). Vegurinn er um 11 km. langur og hefur verið slæmur svo lengi sem elstu menn muna. Til stendur að byrja að laga veginn í sumar og má búast við að sú viðgerð verði um 1-2 km., þar sem vegurinn er bestur. Vert er að vekja athygli á því að um allan veginn fer skólabíll um tvisvar á dag alla virka daga, á kafla er vegurinn beinlínis varhugaverður yfir vetrartímann. Bráðnauðsynlegt er að hraða endurbótum við Eyrarfjallsveg enda hefur umferð um hann stóraukist á síðustu árum vegna fjölgunar íbúa, sumarhúsa og ferðamanna.

Almennt viðhald héraðsvega í sveitarfélaginu er mjög ábótavant. Heflað er einu sinni á ári en að öðru leyti er lítið gert. Sem dæmi um hversu lélegt ástand héraðsveganna er má nefna að síðasta vor neyddust bændur til að lagfæra sjálfir mjög holótta vegi og drullupytti í vegum til að tryggja aðkomu mjólkurbíla að mjólkurbúum og aðkomu annarra ökutækja með aðföng o.fl. Óforsvaranlegt viðhald á héraðsvegunum hefur valdið tjóni í atvinnurekstri og tjóni á ökutækjum þeirra sem ferð hafa átt um vegina. Það er knýjandi að Vegagerðin sinni lögbundnu hlutverki sínu við viðhald héraðsveganna og þarf alþingi að tryggja að svo geti verið.

Raforkumál

6-8 bæir í Kjósarhrepp hafa ekki aðgang að þriggja fasa rafmagni og búa þeir við mjög ótryggt rafmagn, þar sem rafmagnslínur til þeirra eru mjög gamlar og staurar fúnir. Síðustu 12 mánuði hefur það gerst í tvígang að staurar brotna í óveðri og bæir hafa verið rafmagnslausir í allt að 4 sólarhringa. Á einum bæ er ástandið það slæmt að Rarik hefur komið fyrir varaaflsstöð, þar sem ekki er hægt að treysta á rafmagn í vondum veðrum. Nauðsynlegt er að hraða lagningu rafmagns í jörð og aðgangi að þriggja fasa rafmagni alstaðar í sveitarfélaginu

Þrátt fyrir að vera hluti af höfuðborgarsvæðinu borga íbúar Kjósarhrepps 100% meira fyrir flutning á rafmagni en aðrir á höfuðborgarsvæðinu. Ástæða þess er sögð að Kjósarhreppur sé dreifbýli. Kjalarnes flokkast líka sem dreifbýli en þar er sama verð á flutningi rafmagns og á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar í Mosfellsbæ, hvort sem þeir eru í þéttbýli eða dreifbýli borga einnig sama verð óháð búsetu. Það má teljast sanngirnismál að íbúar í Kjósarhreppi borgi sama flutningsgjald og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins.

Heilsugæsla/heilbrigðismál

Kjósarhreppur er hluti af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og ættu því íbúar í Kjós að hafa aðgang að sömu þjónustu og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar Kjósarhrepps njóta hér alls ekki jafnréttis. Svo virðist að gleymst hafi að gera ráð fyrir íbúum í Kjósarhreppi þegar ýmsir þjónustusamningar hafa verið gerðir

Hér er vakin athygli á tveimur málaflokkum;

Þjónusta við nýbakaða foreldra og nýbura – Á heimsíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er sagt að foreldrum nýfæddra barna sé boðið upp á heimavitjanir fyrstu vikurnar þar sem hjúkrunarfræðingur skoðar barnið og veitir foreldrum ráðgjöf og fræðslu.

Komið hefur í ljós að þessi þjónusta er ekki í boði fyrir íbúa Kjósarhrepps. Svo virðist að þegar samningur var gerður við ljósmæður um þessa þjónustu hafi hreinlega gleymst að gera ráð fyrir barnsfæðingum í Kjósarhreppi. Hér þarf að bregðast við strax og gera lagfæringar á samningum. Nýfædd börn í Kjósarhreppi eiga samkvæmt lögum sama rétt og nýfædd börn í öðrum sveitarfélögum á Íslandi.

Heimahjúkrun - Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sér um hjúkrun og endurhæfingu fyrir íbúa í heimahúsum og í tilfelli íbúa í Kjósarhrepps er það heilsugæslan í Mosfellsbæ sem sinnir þjónustunni. Hins vegar er það Heimaþjónusta Reykjavíkur er sinnir kvöld-, helgar- og næturþjónustu.

Því miður virðist vera að ekki hafi verið gert ráð fyrir að sinna þurfi sjúklingum í Kjósarhreppi með sama hætti og í öðrum sveitarfélögum. Þegar sveitarfélagið óskaði eftir heimahjúkrun síðasta sumar var einungis hægt að fá hana á virkum dögum milli kl. 8:00 og 16:00.

Íbúar óstaðsettir í hús

Af um 280 íbúum (lögheimili) í Kjósarhreppi eru um 40 þeirra skráðir “óstaðsettir í hús”. Það þýðir að þessir íbúar eiga heima í sveitarfélaginu en enginn veit hvar og óljóst er með hvað hætti sveitarfélagið á og getur þjónustað þá. Kjósarhreppur sendi bréf á Innviðaráðuneytið í apríl 2022, þar sem vakin var athygli á þessu máli. Í svarbréfi frá ráðuneytinu frá desember 2022 kemur fram að það standi til að fela Þjóðskrá Íslands, Húsnæðis og mannvirkjastofnum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga að greina stöðuna og koma með tillögur að úrbótum. Áríðandi er að þessari vinnu verði hraðað og lögum breytt þannig að stjórnendum sveitarfélaga geti verið ljós réttarstaða “óstaðsettra í hús” og staða sveitarfélagsins gagnvart slíkum lögheimilis-skráningum að því er varðar þjónustu og öryggismál.

Póstnúmer

Kjósarhreppur er með póstnúmerið 276, Mosfellsbær sem töluverðum misskilningi og vandræðum fyrir íbúa sveitarfélagsins. Það er óskiljanlegt að við síðustu breytingar á póstnúmerum hafi Kjósarhreppur ekki fengið að vera 276 Kjós. Við óskum því eftir stuðningi ykkar við umsókn okkar um breytt póstnúmer.

Sveitarstjórn Kjósarhrepps vill minna ykkur þingmenn Suðvesturkjördæmis á að þið eruð líka þingmenn Kjósarhrepps og við hvetjum til að leggjast á árarnar með okkur til að Kjósarhreppur standi jafnfætis öðrum sveitarfélagögum þegar kemur að úthlutun fjármagns hins opinbera til innviða uppbyggingar.

Áskorun

Mikil aukning hefur verið í eftirspurn eftir lóðum í Kjósarhreppi undafarin misseri en gera má ráð fyrir að þegar Sundabraut verður að veruleika muni eftirsókn eftir búsetu í sveitarfélaginu aukast enn frekar. Samgöngur, fjarskipti og þriggja fasa rafmagn er undirstaða þess að hægt verði að byggja sveitarfélagið upp.

Sveitarstjórn skorar á ykkur Bjarni Benediktsson, Jón Gunnarsson, Willum Þór Þórsson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Óli Björn Kárason, Ágúst Bjarni Garðarsson, Sigmar Guðmundsson og Gísli Rafn Ólafsson að leggja okkur lið í þeirri baráttu sem við erum í fyrir sjálfsögðum innviðum í því velferðarsamfélagi sem Ísland er, og myndum gjarnan vilja heyra frá ykkur hvernig þið getið lagt okkur lið.

Sveitarstjórn Kjósarhrepps, 9. mars 2023