Átak til atvinnusköpunar
Áhugaverður fundur verður haldinn í Ásgarði miðvikudaginn 4. nóvember kl. 20:00
Hreppsnefnd Kjósarhrepps hefur hrint af stað verkefni til greina tækifæri til atvinnu- og verðmætasköpunar í hreppnum. Sævar Kristinsson ráðgjafi og Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir atvinnu- og nýsköpunarfulltrúi hjá Bændasamtökunum hafa verið fengin til að leiða verkefnið. Hlutverk þeirra er að greina núverandi stöðu og þau tækifæri sem kunna að felast í hreppnum í samvinnu við fyrirtæki og heimamenn.
Fyrsta skrefið hefur nú verið stigið; Sævar og Guðbjörg fóru um hreppinn sl. föstudag og kynntu sér staðhætti og þá starfsemi sem fyrir er. Haldinn verður fundur í Ásgarði með þeim og heimamönnum þar sem þau kynna sína sýn og kalla eftir hugmyndum heimamanna. Fyrir liggur að margir í hreppnum eru að framleiða vörur og veita fjölbreytta þjónustu sem mætti koma betur á framfæri. Mikilvægt er að greina þau ónýttu tækifæri sem felast í fólkinu og í hreppnum í heild, þannig að hægt sé að marka ákveðna stefnu í atvinnuuppbyggingu sem nýtist í nútíð og framtíð. Markmið allra samfélaga er að skapa þær aðstæður að unga fólkið hafi erindi til að snúa heim að námi loknu.
Sævar og Guðbjörg hafa mikla reynslu af vinna með sveitarfélögum og er einstaklega áhugavert að hlýða á þeirra framsetningu. Íbúar hreppsins eru því eindregið hvattir til að mæta á fundinn.
