Átt þú óskráða eign í Kjósinni?
Undanfarna mánuði hefur Kjósarhreppur verið í átaki er varðar öryggis- og lokaúttektir fasteigna. Þetta er m.a. gert með hag íbúa í huga varðandi ábyrgðir og öryggi, sem og að fasteignir fái rétt brunabótamat ef eitthvað fer úrskeiðis.
Nokkur fjöldi fasteignaeigenda fékk póst þar að lútandi nú á dögunum, þar sem hvatt var til úrbóta. Verkefnið mun halda áfram og einhver fjöldi mun svo á komandi vikum fá áminningu um að láta framkvæma öryggis- eða lokaúttekt, en það er það sem þarf til að fá rétt brunabótamat sem og til að tryggja lögmæta notkun mannvirkja, en ekki er leyfilegt að taka mannvirki í notkun án öryggis eða lokaúttektar.
Borið hefur á misskilningi varðandi það hver beri ábyrgð á að úttektir fari fram en ábyrgðin liggur hjá eiganda, en byggingarstjóri ætti að sjá til þess að hún fari fram og í flestum tilfellum óskar hann eftir því fyrir hönd eiganda áður en mannvirki er tekið í notkun.
Viðbrögð við erindinu hafa að mestu leyti verið jákvæð og fólk brugðist við með ósk um úttekt, og þökkum við fyrir samvinnu íbúa Kjósarhrepps í þessu átaki.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur nú hafið átak í málum er lúta að úttektum og brunabótamati en eftirfarandi ábending barst okkur frá HMS:
"HMS langar að upplýsa um breytta nálgun við yfirferð byggingarstiga og framkvæmd brunabótamats til að styðja við markmið okkar um að gera öryggis-og lokaúttektir, ásamt því að vottorðum sé skilað tímanlega í mannvirkjaskrá.
Tilgangur öryggis- og lokaúttekta
Öryggis- og lokaúttektir eru lögbundnar úttektir sem tryggja öryggi og lögmæta notkun mannvirkja. Öryggisúttekt fer fram áður en mannvirki eða hluti þess er tekinn í notkun og staðfestir öryggisvottorð að viðkomandi hluti mannvirkis sé öruggur til notkunar. Lokaúttekt fer fram að framkvæmd lokinni og er lokaúttektarvottorð grundvöllur endanlegs notkunarleyfis.
Öryggis- og lokaúttektir eru auk þess forsenda ýmissa annarra aðgerða, en vottorð um öryggisúttekt þarf til að mynda að liggja fyrir áður en setja má brunabótamat á mannvirki. Það er því mikill hagur í því að vottorðin séu aðgengileg til að auka skilvirkni, ekki síst hins opinbera.
Núverandi staða
Í framvinduskoðunum HMS hefur komið í ljós að mannvirki hafa verið tekin í notkun án þess að öryggis- eða lokaúttektir hafi verið framkvæmdar. Eigendur mannvirkjanna bera ábyrgð á að slíkar úttektir séu framkvæmdar en byggingarfulltrúar sem framkvæma úttektirnar, gegna lykilhlutverki í að gera úttektirnar og vottorðin aðgengileg í mannvirkjaskrá.
Markmið
Markmið með breyttri áherslu HMS er að öryggis- og lokaúttektir ásamt vottorðum verði ávallt gerðar aðgengilegar í mannvirkjaskrá. Það mun tryggja rekjanleika, samræmi og gagnsæi í mannvirkjagerð auk þess sem það veitir eigendum mannvirkja aðhald til að sinna sínum skyldum, til að mynda gagnvart leigjendum.
Breytt nálgun –skerpum á verklagi
Til að fylgja betur eftir að öryggisúttektir hafi farið fram áður en eignir eru teknar í notkun og að lokaúttekt sé skráð áður en eignir fara á byggingarstig 4, hefur HMS hafið innleiðingu á eftirfarandi verklagi:
- Skýrir ferlar: HMS staðfestir ekki beiðnir frá byggingarfulltrúum um byggingarstig 4 nema öryggis- og lokaúttektir hafi verið framkvæmdar og úttektir ásamt vottorðum séu aðgengilegar í mannvirkjaskrá.
- Öryggisúttekt forsenda brunabótamats: HMS setur ekki brunabótamat á mannvirki nema vottorð um öryggisúttekt liggi fyrir og sé aðgengilegt í mannvirkjaskrá.
- Aukið gagnsæi í mannvirkjaskrá: Vottorð um öryggis- og lokaúttekt verður í framtíðinni gert aðgengilegt öllum notendum mannvirkjaskrár.
- Upplýsingagjöf og stuðningur: HMS mun birta leiðbeiningar sem styðja byggingarfulltrúa við eftirlitshlutverk þeirra og skil á úttektum ásamt vottorðum í mannvirkjaskrá."
Með von um gott samstarf
Bygginga- og skipulagssvið Kjósarhrepps óskar íbúum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með þökk fyrir samvinnuna á árinu.
Olgeir Olgeirsson
Verkefnastjóri Skipulags- og byggingarsviðs