Aukinn áhugi á hænsna-og sauðfjárrækt til heimilisnota
Vart hefur aukins áhuga á búfjárhaldi í hreppnum að undanförnu. Það er rakið til þeirra þrenginga sem upp er komnar í landinu með þverrandi tækifærum til að afla launatekna og í ljósi þess að hollur er heimafenginn baggi. Íbúar líta einkum til hænsna en nokkuð er af þeim fyrir í hreppnum, Á hverju heimili fellur nokkuð til af úrgangi, sem fóðrað getur nokkur hænsn, og er það talið sýna mikla hagsýni að nýta hann til eggjaframleiðslu til heimanota í stað þess að afsetja hann með ærnum kostnaði.
Þá er vitað að einhverjir ætla að koma sé upp sauðfjárstofni á næsta hausti. Á það m.a. við um þá félaga Ólaf á Stekkjarflöt og Ragnar á Bollastöðum en þeir hyggjast nýta gjöfult land sitt að nokkru leiti til sauðfjárbeitar og með þeim hætti verða sjálfir sér nógir með dilkakjöt. Ragnar er sjálfur af dýrfirskum fjárhirðaættum og ólst upp að nokkru leiti í Svalvogum. Hann hefur gert nokkuð af því að reykja kjöt, með ágætum árangri, þó það þurfi ekki að gefa vísbendingu um að hann verði gildur sauðfjárbóndi. Það hefur þótt með ólíkindum hve heimtur hafa verið góðar hjá honum í reykkofanum á hausti hverju þó fjárlaus sé. Ekkert bendir þó til þess að ástæða sé til að tengja það rýrum heimtum á öðrum bæjum.