Brúsaþjófur mun eiga í vændum vökunætur og óhamingju
Á brúsapalli við bæinn Kiðafell hafði verið komið fyrir mjólkurbrúsum,sex talsins. Var það gert í tilefni af Kátt í Kjós og til að minna á liðna tíma og beina athygli vegfaranda að Samansafninu á fjósloftinu á bænum. Hafa brúsarnir fengið að vera þar í friði enda lítt meðfærilegir;fullir af sandi.
Nú hefur það hinsvegar gerst að þremur brúsum hefur verið stolið af pallinum.Samkvæmt upplýsingum heimamanna voru þeir varaðir við að þetta gæti gerst en þeir skellt skollaeyrum og töldu ólíklegt að nokkur legðist svo lágt að vilja skreyta umhverfi sitt með stolnum munum. Þeir segjast nú bregðast við með þeim hætti að upp verði mögnuð sending, til þess sem valdur er að hvarfi brúsana. Muni hún sjá til þess að samviska hans verði nöguð inn að beini og verði svefnlaus að þeim sökum og yfir hann hellist óhamingja sem linni ekki fyrr en hann hefur skilað brúsunum.