Dagur kvenfélagskonunnar er 1. febrúar
1. febrúar er Dagur kvenfélagskonunnar. Dagurinn, sem er stofndagur Kvenfélagasambands Íslands, var formlega gerður að degi kvenfélagskonunnar á síðasta ári. Var það gert til að vekja athygli á miklu og óeigingjörnu starfi kvenfélagskvenna um árabil og löngu tímabært að kvenfélagskonur fengju sinn eigin dag á dagatalinu.
Dagurinn er að festa sig í sessi og er nú á fjölmörgum dagatölum og í dagbókum. Kvenfélagasamband Íslands vekur athygli á deginum í fjölmiðlum til að festa hann enn frekar í sessi.
Kvenfélög og kvenfélagskonur eru hvattar til að muna eftir deginum og jafnvel gera sér dagamun hver og ein eða saman, en einnig að vera tilbúnar til að taka á móti hamingjuóskum og athygli þennan dag.
Aðalfundur kvenfélags Kjósarhrepps var nefnilega haldinn þann 1. febrúar að Hjalla hjá Birnu Einarsdóttur sem vel tók á móti konum að vanda. Kvenfélagskonur í Kjós gerðu sér þar glaðan dag saman. Fjórtán konur sátu fundinn en 15% fjölgun hefur verið í félaginu að undanförnu.
Mikilvæg lagabreyting var gerð á fundinum, en hún gerir konum úr öðrum sveitarfélögum mögulegt að ganga í félagið en starfssvæðið verður samt sem áður, áfram, Kjósarhreppur.
Stjórn félagsins skipa nú: Hulda Þorsteindsdóttir formaður, Katrín Cýrusdóttir var kosin nýr gjaldkeri á fundinum og Anna Björg Sveinsdóttir er ritari.