Engin vandamál í Kjósarhreppi
Af vef lögreglunar |
|
Árlegur fundur lögreglunnar og hreppsnefndar Kjósarhrepps var haldinn í Ásgarði í gær en fundinn sátu jafnframt nokkrir fulltrúar úr félagsmálanefnd hreppsins. Að vanda var farið yfir þróun brota í sveitarfélaginu sem er það fámennasta á höfuðborgarsvæðinu en íbúar þess voru 196 í árslok 2008. Þrátt fyrir fámennið er svæðið víðfemt og hefur líka ákveðna sérstöðu af þeim sökum. Eins og alltaf eru Kjósverjar höfðingjar heim að sækja en þeir buðu gestum upp á flatkökur með hangikjöti og brauð með reyktum laxi og svo var drukkið kaffi með því. Á tímabili leit reyndar út fyrir að lögreglustjóri og föruneyti hans kæmist ekki á fundinn því lögreglubíllinn þeirra bilaði á leiðinni. Var gripið til þess ráðs að fá annan bíl í staðinn og komst hópurinn á leiðarenda. Fundurinn hófst því nokkru á eftir áætlun en það kom ekki að sök enda eru Kjósverjar ekkert að æsa sig yfir smámunum. |