Frábær árangur kynbótahrossa við Meðalfellsvatn í Kjós.
Íslenski hesturinn er verðugur fulltrúi Kjósarinnar. Kjósin skartar mörgum náttúruperlum og fallegt mannlífið þrífst þar sem aldrei fyrr í nánum tengslum við náttúruna og dýraríkið. Hrossarækt í Kjósinni er ekki aðeins landskunn heldur þekkt um víða veröld á meðal unnenda íslenska hestsins. Meðalfellsvatn í Kjós virðist vera afburða lífselexír fyrir íslenska hestinn og er engin ástæða til þess að þegja yfir því.
Hrossabændur við Meðalfellsvatn náðu frábærum árangri á árinu 2015.
Kristján Finnsson, bóndi á Gróteyri við Meðalfellsvatn, ræktaði stólpagæðinginn Glóðafeyki
frá Halakoti ásamt dóttur sinni Svanhvíti Kristjánsdóttur. Glóðafeykir sigraði flokk stóðhesta 7 vetra og eldri nýverið á heimsmeistaramótinu í Herning. Glóðafeykir stendur nú annar af hæst dæmdu 7 vetra stóðhestum og eldri í heimi af íslenska hestakyninu á árinu með 8,75 í aðaleinkunn, 9,04 fyrir hæfileika og 8,31 fyrri byggingu. Glóðafeykir er undan Glóð frá Grjóteyri og Rökkva frá Hárlaugsstöðum. Glóðafeykir á að baki farsælan keppnisferil á Íslandi og stendur þar hæst ógleymanleg sýning Einars heitins Öder á hestinum er hann sigraði B-flokk á landsmóti 2012 með einkunnina 9 í úrslitum.
Guðný G.Ívarsdóttir og Sigurður Guðmundsson rækta hross í Flekkudal Í Kjós en Flekkudalur
stendur við Meðalfellsvatn eins og Grjóteyri og Meðalfell. Hryssan Ríkey frá Flekkudal fékk silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu í Herning í flokki 5 vetra hryssa. Ríkey stendur nú þriðja af hæst dæmdu 5 vetra hryssum í heimi af íslenska hestakyninu á árinu með 8,42 í aðaleinkunn, 8,35 fyrir hæfileika og 8,53 fyrir byggingu. Ríkey er undan Björk frá Vindási og Glym frá Flekkudal. Amma Ríkeyjar er Pyttla frá Flekkudal sem er undan Adam frá Meðalfelli.
Sigurbjörg Ólafsdóttir og Sigurþór Gíslason, bændur á Meðalfelli við Meðalfellsvatn, ræktuðu
og eru eigendur hryssunnar Nípu frá Meðalfelli, sem kom fram á kynbótasýningu á Hellu nú miðsumars og vakti verulega athygli enda hryssan stólpagæðingur. Nípa stendur nú önnur af hæst dæmdu hryssum í heimi af íslenska hestakyninu á árinu með 8,59 í aðaleinkunn, 8,9 fyrir hæfileika og 8,13 fyrir byggingu. Nípa er undan Esju frá Meðalfelli og Orra frá Þúfu í Landeyjum. Hinn nafntogaði gæðingur og kynbótahestur Adam frá Meðalfelli stendur sterkt að baki Nípu en hann er faðir Esju og afi Orra.