Fara í efni

Fréttir af borun

Deila frétt:

Þann 17. mars sl. var hitamælt í holunni eftir langt helgarstopp á Nasa,  en þá hafði verið borað úr 1010 m dýpi niður í 1222 m án teljandi tíðinda, utan þess að vart hafði verið við einhverja gloppu í borununni á ca. 1140 m dýpi. Svoleiðis er stundum hægt að túlka sem innrennslisæð en í þessu tilfelli varð ekki vart við neitt slíkt. Svipaður atburður varð einnig á um 930 m dýpi.

Strax eftir mælinguna voru gerðar ráðstafanir til að halda áfram að dýpka holuna  í 1300 m og jafnvel dýpra ef þess þarf. Sérfræðingar eru vissir um að vatn sé þarna að finna en málið er að hitta á æðina.

Borun hófst aftur að morgni 18. mars og að kvöldi  sunnudagsins  23. mars  var dýpi holunnar komið í 1383 en þá varð að hætta borun vegna bilunar. Allar borstangir voru teknar upp.  Borun hefst aftur mánudaginn 31. mars og guð láti þá gott á vita er haft eftir sérfræðingi ÍSOR.  Sérfræðingurinn, Þórólfur Hafstað hjá ÍSOR  sagði   Reyni varla að lýsa þessu nánar, en bendi á að við svipaðar aðstæður var heitið á Saurbæjarkirkju, norðan Hvalfjarðar og viti menn, vatnið fossaði upp.