Fréttir af hitaveitunni
Allt er komið á fullt í lagningu hitaveitu- og ljósleiðararöra í sveitinni.
Sunnudaginn 22. maí sl. var tekin formleg skóflustunda að stöðvarhúsi hitaveitunnar sem mun rísa við borholu MV-19 við Möðruvelli.
Við það tækifæri var Braga Þór Haraldssyni, hönnuði veitunnar þakkað sérlega gott samstarf og ómetanleg þolinmæði við undirbúning verksins. Ljóst er að vinnu Braga er hvergi lokið, enda er hann sjálfur í útmælingum á lögninni og er þessa dagana að heimsækja frístundahúsaeigendur við Hjarðarholts-, Dælisár- og Holtsveg.
Í maí var skrifað undir samning við Gröfutækni ehf., verktakann sem sér um lagningu stofnæðarinnar (stál-lögnina) auk heimaæða heim að bæjum og stökum frístundahúsum.
Í apríl var skrifað undir samning við Magnús Ingberg Jónsson ehf, verktakann sem sér um lagninu heimæða í þéttustu frístundahúsahverfunum. Báðir verktakar eru byrjaðir.
Þá er búið að semja við verkfræðistofuna VERKÍS um formlegt framkvæmda- og kostnaðareftirlit með verkinu. Haldnir verða verkfundir vikulega, með hvorum verktaka til skiptis. Lögð er áhersla á góða samvinnu milli verktaka, góða umgengni um landið og gott samstarf við íbúa og frístundahúsaeigendur auk öryggismála. Búið er að halda tvo verkfundi og m.a. fara yfir ábendingar sem hafa borist vegna hliða sem skilin eru eftir opin, enda búfénaður fljótur að nýta sér tækifærið að næla sér í gómsætan trjágróður og safaríkt gras. Verktakar munu taka sig á í þeim efnum.
Allar ábendingar um það sem betur má fara er gott að fá sem fyrst, hægt er senda inn á netfangið: kjosarveitur@kjos.is, hringja inn á skrifstofuna, s: 566-7100 eða í vaktsíma Kjósarveitna gsm: 853-2112 (Kjartan).
Í mörg horn er að líta eins og meðfylgjandi myndir sýna, Kjósarveitur start
Með hlýjum kveðjum
Kjósarveitur ehf
