Fyrirlestur um "Kirkjustað og skólahald."kl.14:00 á Kátt í Kjós
Á Reynivöllum hefur verið kirkja frá landnámstíð eftir því sem best verður séð. Kirkjan sem þar er nú var reist árið 1859. Staðurinn býr yfir mikilli sögu enda alla tíð í þjóðbraut. Þar var þinghús sveitarinnar og fyrsti barnaskólinn, einnig var þar stundað fyrsta fiskeldi á Íslandi, 1884-6.
Kirkjan sem nú stendur á Reynivöllum er ein elsta timburkirkja landsins. Hún var reist árið 1859 í tíð séra Gísla Jóhannessonar. Allt fram til þess tíma hafði kirkjan staðið í kirkjugarðinum ofanverðum og skammt frá hafði bærinn staðið frá ómunatíð, uns hann var færður á svipaðar slóðir og hann er nú, þó lítið eitt neðar, eftir skriðuföll sem gengu oftsinnis yfir staðinn á 17. öld. Um aldamótin 2000 var kirkjan endurbyggð að verulegu leyti, m.a. voru bekkir þá smíðaðir að nýju. Altaristafla eftir Brynjólf Þórðarson prýðir kirkjuna auk ýmissa annarra merkra gripa.
Sóknarpresturinn, dr. Gunnar Kristjánsson, verður með fyrirlestur um kirkjustað og skólahaldi kl. 14:00 á Reynivöllum í tilefni af 150 ára afmæli Reynivallakirkju á þessu ári.