Harðbali í sögulegu ljósi
Í bókinni ,Kjósarmenn, segir í sveitarlýsingu “ að þarna niður við voginn voru fram undir síðustu aldamót (1900) fjögur tómthúsmannabýli á litlum bletti. Hverfi þetta hét Harðbali. Nafnið er ekki aðlaðandi né vekur hugmyndir um búsæld. Lítill gróinn tangi gengur út í voginn. Næstum yst á honum var einn bærinn. Þegar saman fór mikið flóð og vestanátt flæddi inn í bæjardyrnar.Fyrsti bærinn af þessum fjórum fór í eyði rétt fyrir aldamótin en sá síðasti um 1920. Um tíma var Harðbali lendingarstaður fyrir mótorbára, sem fluttu vörur að og frá sveitinni”
Þjóðbraut lá um þetta svæði allt þar til vegurinn var byggðu upp þar sem hann er nú.
Lá vegurinn niður í fjöru skammt innan við Miðbúðir og þræddi ýmist flæðarmálið eða sjávarbakka nokkuð inn fyrir Harðbala. Var þarna ófært á köflum ef verið var á ferð þar um flóð.
Eins og fram hefur komi hér á síðunni hefur nú verið lagður vegur niður Harðbalann að Flóðatanga og gert bílaplan við Siglungalæk. Á þessu litla svæði má sjá leifar þessara bæja sem í bjuggu fólk við nokkra fátækt. Þar má jafnframt skoða grjótgarða,mógrafir og gömlu þjóðbrautina.
Landsvæði þetta, neðst á “Stórutungu”, tilheyrði Eyrarbæjum óskipt. Árið 1970 fékk Guðlaugur heitinn Jakobsson frá Sogni leigt land undir sumarhús á Flóðatanga sem ekkja hans Katrín Kristjánsdóttir frá Blönduholti hefur nú.
Þegar jörðunum Eyri og Eyrarkoti var endanlega skip árið 1992 hlaut Eyrarkot Stórutungu, en Kjósarhreppur var þá eigandi Eyrarkots. Lét hann skipuleggja þar fjórar lóðir, og veg að Flóðatanga, í viðleitni sinn til að fjölga íbúum í hreppnum, og setti þeim, sem keyptu lóðirnar skilyrði, um að þar yrði reyst íbúðarhús og að flutt yrði í þau innan tiltekins tíma.