Hernámsárin á bókasafnskvöldi miðvikudaginn 28. mars kl 20 í Ásgarði
Magnús Þór Hafsteinsson kemur og kynnir bók sína „Dauðinn í Dumbshafi -
Íshafsskipalestirnar frá Hvalfirði og sjóhernaður í Norður-Íshafi“ á bókasafnskvöldi miðvikudaginn 28. mars kl 20 í Ásgarði. Bókin fjallar m.a. um mikilvægi Hvalfjarðar í síðari heimsstyrjöldinni. Með erindi sínu mun Magnús sýna einstakar breskar og þýskar kvikmyndir af sjóhernaðinum í Norðurhöfum, úr Hvalfirði og af skipalest sem fór héðan haustið 1942 og bardögum um hana. Þessar myndir hafa ekki verið sýndar hér á landi fyrr.
Farmskip Bandamanna söfnuðust yfirleitt saman í herskipalægi þeirra í Hvalfirði, og þaðan lá leiðin með herskipavernd norður og austur með Íslandi og norðaustur í haf til Norðvestur Rússlands. Hvalfjörður varð ein mikilvægasta flotastöð Bandamanna þar sem mikil umsvif voru í Kjósinni m. a. með bækistöðum í Hvammsvík og Hvítanesi.
Bókin „Dauðinn í Dumbshafi“ kom út fyrir síðustu jól og hefur hlotið góðar viðtökur lesenda og einróma lof gagnrýnenda. Missið ekki af fróðlegu erindi og umræðum og mjög áhugaverðum kvikmyndum af heimssögulegum atburðum þar sem Hvalfjörður og Kjósin gegndu lykilhlutverki.
Boðið verður upp á kaffi og meðlæti. Kjósarstofa verður opin þar sem verður hægt að versla bækur og handverk og skoða ljósmyndasýningu.