Fara í efni

Hitaveitu fréttir

Deila frétt:

  Hitaveituverkefnið þokast áfram jafnt og þétt.

Það er gaman að finna þann mikla áhuga sem íbúar og sumarhúsaeigendur hafa á verkefninu, margir eru óragir við að senda inn fyrirspurnir og vilja fá daglegar hitaveitufréttir!

 

 Því miður þurfti að hafna öllum vinnu-tilboðum og í kjölfarið hefur farið  talsverður tími í að semja sérstaklega varðandi hvern verkhluta fyrir sig. Í næstu viku er gert ráð fyrir að gengið verði frá formlegri undirritun við þá verktaka sem sjá munu um jarðvinnuna. Einnig á eftir að fara með aðila á vegum Fornleifastofnunar yfir lagnaleiðina. Þá er eftir að klára samningagerð við landeigendur þar sem hitaveitulögnin verður lögð.

Fyrirhugaðri "fyrstu skóflustungu" sem átti að vera á Sumardaginn fyrsta er því frestað um sinn, betra að allt sé klárt og undirskrifað áður en hafist er handa við að grafa.  

 

Sl. föstudag fóru fulltrúar Kjósarhrepps á fund með Gagnaveitu Reykjavíkur til að ganga frá samkomulagi varðandi aðkomu Gagnaveitunnar varðandi rekstur ljósleiðara í Kjósarhreppi. Næst þurfa aðilar frá Gagnaveitunni og Kjósarhreppi  að funda með Póst- og fjarskiptastofnun til  að kynna fyrirkomulagið og fá umsögn þeirra.

 

Vinna við verkefnið er á fullri ferð en eins og vitað var þá hægir aðeins á ferðinni á meðan farið er í gegnum reglugerðarskóginn, en eins og alltaf þá leitast stjórn Kjósarveitna eftir því að fremsta megni að fara eftir settum reglum og framkvæma ekki án leyfis.

 

Það mjatlast inn svör en betur má ef duga skal, enn eiga 35% sumarhúsaeigenda eftir að svara. Verkáætlun tekur mið af áhuga á hverju svæði fyrir sig. Því er nauðsynlegt að láta strax heyra í sér, bæði hvort það er áhugi á að tengjast eða ekki.

Þar sem lítil þátttaka er, þá er hætt við að ekki verði hægt að veita þeim sem vilja tengjast ásættanlega afhendingu á heita vatninu og framkvæmdum á því svæði frestað - þannig að hvert hús skiptir máli !

 

Þrátt fyrir að formlegri "skóflustungu" sé frestað að hálfu Kjósarveitna þá er síður en svo að framkvæmdum sé frestað innansveitar. Má segja að fyrstu skóflustungurnar sé þegar búið að taka hjá Ferðaþjónustunni að Eyrarkoti eins og meðfylgjandi myndir sýna. Bergþóra og Sigurbjörn voru meðal þeirra fyrstu sem skiluðu inn skuldbindandi þátttöku. Þau bíða spennt eftir hitaveitunni og hlakka til að geta boðið gestum sínum í heita pottinn !