Hitaveitu fréttir úr Kjósinni
Veðrið leikur aldeilis við verktakana hér í Kjósinni enda gengur verkið vel.
Er þokkalega á áætlun og óbreytt planið að hleypa vatni á legginn frá Möðruvöllum um Meðalfellsvatn og að Hvalfirði í lok árs. Auk hluta frístundahúsasvæðisins Valshamars í Eilífsdal, Eyrar og Neðri-Hlíð.
Verktakar hjá Gröfutækni ehf eru búnir að dreifa 4,2 km af stofnæðinni (stálinu), af því eru 4 km fullsoðnir og búið að lekaprófa fyrstu 3,1 km. Þetta mun síðan allt fara ofan í jörð í næstu viku.
Stofnlögnin er komin að Grjóteyri. Verktakar hinkruðu meðan Kristján á Grjóteyri og Guðný í Flekkudal slóu. Enda er áætlunin að ná inn að Flekkudal í næstu viku. Það er góð spretta og sláttur víða hafinn fyrr þetta sumarið svo allt hjálpar til við að verkinu miði hratt og vel áfram.
Þverun Sandsár er lokið. Stofnlögnin heldur áfram sína leið inn fyrir Meðalfellsvatn, niður að Þúfu, Blönduholti, Felli og áfram niður að Hvalfirði.
Undirverktakinn Þorkell Hjaltason (Bóbó frá Kiðafelli) er samhliða að undirbúa íbúðarhúsin fyrir væntanlega hitaveitu, m.a. bora í gegnum útveggi og slíkt. Hann hefur haft samband beint við íbúana og í sameiningu fundið tíma sem hentar í verkið.
Verktakarnir hjá Magnúsi Ingberg Jónssyni hf eru að leggja lokahönd á Hjarðarholtið þessa dagana, eru farnir að undirbúa frístundahúsaeigendur að Eyrum og Neðri-Hlíð, á frístundahúsasvæðinu Valshamri inn í Eilífsdal. Þetta árið verður helmingur frístundahúsasvæðisins í Eilífsdal tekinn. Þegar því er lokið fara þessir verktakar aftur niður að Meðalfellsvatni í haust, þegar umferðin minnkar og klára þar.
Kjósarveitur ætla að bjóða heim að Möðruvöllum 1 (þar sem lagerinn er) á Kátt í Kjós og vera með sjóðheit tilboð og heitt á könnunni.
Það verður opið hús frá kl. 11-16, bæði laugardag 16. júlí og sunnudag 17. júlí. Því margir eru uppteknir við eigin viðburði á laugardeginum og geta þá kíkt í kaffi til Kjósarveitna á sunnudeginum.
Allir hvattir til að kíkja við, um að gera að nýta tækifæri til fá svör við vangaveltum sínum og sjá hvaða tilboð eru í gangi.
Dæmi:
Ísrör verður með tengiskápa: http://www.isror.is/tengiskapar/
og Ísleifur Jónsson verður mættur með áhugaverð tilboð á ýmsu: http://www.isleifur.is/
Við hjá Kjósarveitum þökkum fyrir þá tillitssemi sem verktökum okkar er sýnd. Þetta er mjög stór framkvæmd sem óhjákvæmilega hefur áhrif á umhverfi sitt.
Við erum alltaf til í að ræða málin og finna lausnir, svo ekki hika við að hafa samband.
Góðar kveðjur,
Kjósarveitur ehf, s: 566-7100
Sigríður Klara, sigridur@kjos.is, GSM: 841-0013
Kjartan, kjartan@kjos.is, GSM: 853-2112
![]() |
![]() |
|
![]() |
![]() |
|




